142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[15:00]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra, ég þakka þér fyrir þín stuttu andsvör. Ég bendi á að frumvarp um Hagstofuna situr enn í allsherjar- og menntamálanefnd og er afar umdeilt, þ.e. það frumvarp að veita Hagstofunni nánast ótakmarkað leyfi til upplýsingaöflunar. Það er mjög umdeilt og er ekkert víst að það fari neitt lengra. Þar er ýmis þrándur í götu, skulum við segja.

Ég ítreka aftur að samkvæmt 1. minnihlutaáliti höfum við ekki í hyggju að standa í vegi fyrir þessari tillögu. Við höfum ekki í hyggju að standa í vegi á nokkurn hátt fyrir því að ríkisstjórnin skipi þá starfshópa og nefndir sem hún telur nauðsynlegt til að kanna þessi mál. Ég tek undir með að auðvitað á að vanda til, en það hefur nú líka margt verið gert og það má vel byggja á því að mörgu leyti. Það hefur margt verið gert og margt gott. Það er búið að slá máli á ýmsa hópa sem þarf að koma til móts við og það er hægur leikur að ganga í það verk. Ég bendi á það að í heimakjördæmi okkar, mínu og hæstv. forsætisráðherra, Norðausturkjördæmi, gerði ég víðreist í aðdraganda kosninganna í heilan mánuð. Ég sat þar marga fundi með frambjóðendum Framsóknarflokksins og þar fóru þeir mikinn í loforðum um hvað verða skyldi og þær breytingar sem koma skyldu sem ég hef ekki séð stafkrók um í þeim frumvörpum sem lögð hafa verið hér fyrir. Það þykir mér miður.

Þess er kannski vert að geta þess að á öllum þessum fundum náði ég aldrei að sitja fund með hæstv. forsætisráðherra í öllu þessu kjördæmi, heimakjördæmi okkar beggja. Ég hefði kannski betur gert það, þá hefði ég fengið skýrari mynd af því sem fyrir lægi. Upplifun mín af kosningabaráttunni, og ég tel mig tiltölulega óvitlausan, var einfaldlega sú að hér væri miklu meira í vændum og stæði miklu meira til en það sem við höfum séð núna. Það sem við höfum séð til þessa eru frumvörp sem snúa að því að hjálpa þeim sem hafa og geta en ekki mikla sýn á það hvernig á að breyta samfélaginu eða hvernig á að koma til móts við þá sem ekki hafa og ekki geta.