142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[15:25]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Alloft hefur komið fram að hv. þm. Guðbjartur Hannesson er mjög viðkvæmur fyrir gagnrýni á síðustu ríkisstjórn. Það er hins vegar óþarfi að bregðast iðulega við því eins og hv. þingmaður gerir hér ítrekað, með einhverjum skætingi og með því að vísa í eitthvað sem hann hefur fundið einhvers staðar á netinu og reynir að nota það til þess að ráðast á mann með ódýrum skotum. (GuðbH: Dæmi?)

Hv. þingmaður kvartaði líka sáran undan því að núverandi stjórnarandstaða, og þá líklega ekki hvað síst hv. þingmenn Samfylkingarinnar séu stöðugt sakaðir um að annarlegar hvatir búi að baki afstöðu þeirra. Það er ekki rétt. Það hefur ekki verið annað en það að bent hefur verið á hversu undarlegt það er að þingmenn skuli koma hér, nýkomnir úr ríkisstjórn, og skammast yfir því á fyrstu dögum nýs þings að ekki sé búið að klára risastór mál sem lá fyrir í kosningabaráttunni að vinna ætti áfram eftir kosningar, að þeir skuli mæta hér og skammast yfir því að þetta hafi ekki verið gert á fyrstu dögum þegar hv. þingmenn gátu ekki klárað þessa sömu hluti á fjórum árum. Það eru ekki ásakanir um annarlegar hvatir.

Hins vegar hefur ekkert skort á ásakanir um annarlegar hvatir í garð nýrrar ríkisstjórnar og nýs meiri hluta á þinginu. Það er nánast ekki haldin ræða hér t.d. um sjávarútvegsmál öðruvísi en að menn séu sakaðir um annarlegar hvatir, að vera að gæta hagsmuna einhverra annarra, að vera í sérhagsmunagæslu, enda þótt hv. þingmaður hafi nú reyndar reynt um skeið leitt svokallaða sáttanefnd um sjávarútvegsmál og núverandi ríkisstjórn hafi sérstaklega getið þess í stjórnarsáttmála að hún vildi halda áfram með þá vinnu sem hv. þingmaður hafði unnið á því sviði.

Hvað varðar hins vegar álitamál um veiðigjald var augljóst að ekki var hægt að framkvæma það sem síðasta ríkisstjórn skildi eftir. Samt mega menn búa við það að vera stöðugt, (Forseti hringir.) í ekki bara því máli heldur málum almennt, sakaðir um annarlegar hvatir og svo sakaðir um að bera öðrum það á brýn.