142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

jafnlaunaátak á heilbrigðisstofnunum.

[10:38]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður talar um óvissu og óróa í heilbrigðisstofnunum og ég læt ógert að rifja upp þann óróa sem varð til þess að menn fóru af stað við að reyna að endurskoða þessi mál. Eins og hv. þingmaður gat reyndar um hefur hæstv. fjármálaráðherra þegar lýst því yfir að hann styðji þá viðleitni sem hér er um að ræða og muni finna leið til að þau markmið nái fram að ganga.

Það er mjög mikilvægt að haga málum á þann veg að þau skili sér í raunverulegum kjarabótum hjá umræddum stéttum til langs tíma. Það gerist ekki öðruvísi en menn vinni þetta í samráði við aðila vinnumarkaðarins til að tryggja að þeir taki þátt í þessu og vinni með stjórnvöldum að því að ná þessum markmiðum.

Það er alveg ljóst að ýmsar stéttir þar sem konur eru í meiri hluta starfsmanna, og í sumum tilvikum í miklum meiri hluta, hafa um margt dregist aftur úr í launum og mikilvægt að leiðrétta það. Um þetta er ekki ágreiningur eins og hv. þingmaður nefndi reyndar hér í upphafi fyrirspurnar sinnar. Þetta snýst því fyrst og fremst um það hvernig menn tryggja að þessar úrbætur haldi til langs tíma, að þetta verði raunverulegar kjarabætur til langs tíma. Það gerum við best með því að vinna þessi mál áfram með aðilum vinnumarkaðarins.