142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[21:16]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var útúrsnúningur hjá hv. þingmanni um hagsmunatengslin. Þau komu fram hjá þingmanni hér í gærkvöldi þannig að þetta eru ekki einungis mín orð um að ákveðin tengsl séu í gangi.

Það að bera saman tengsl fólks sem er í eigin atvinnurekstri sem hefur gríðarlegra hagsmuna að gæta eða landssamtaka eins og Landsbjargar finnst mér ekki alveg við hæfi, en það endurspeglar kannski ólíka sýn okkar á pólitík og lífið og tilveruna.

Hv. þingmanni verður mjög tíðrætt um málefnalegan rétt. Hvað er málefnalegur réttur? Er það það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur fram að færa? Allt sem virðist vera sagt eða hafa verið gert af hálfu fyrri ríkisstjórnar er ómögulegt. Er þetta sýnin á málin eða er þetta trúin á hvað er rétt?

Þetta er spurning um að greina einstök atriði eða pólitíska sýn yfirleitt. Þar á milli held ég að sé, því miður þingsins vegna, svolítið langt bil.

Hv. þingmaður talaði sjálfur áðan um að fyrri ríkisstjórn hefði verið að hygla. Ef umræðuhefðin á að batna er betra að allir gæti orða sinna, það er ekki einungis hægt að krefjast þess af okkur í stjórnarandstöðunni.

Ég held að það sé útúrsnúningur að það sé eingöngu mín skoðun eða það sem ég hafi sagt um hagsmunatengslin. Það er ekki rétt, það er ekki eingöngu þannig. Það veit (Forseti hringir.) hv. þingmaður.