142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[21:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur verið reynt í þessu máli, ekki eingöngu af hv. þingmanni sem var hér í síðustu ræðu, heldur af öðrum að gera málið tortryggilegt. Það hefur loðað svolítið við umræðu okkar um sjávarútvegsmál, það að gera málin tortryggileg og koma oft fram með upplýsingar sem standast ekki skoðun. Ég nefndi dæmi um það áðan.

Við fengum beiðni frá hv. þingmönnum í minni hlutanum í atvinnuveganefnd þar sem þeir óskuðu eftir gestum á fundi nefndarinnar. Þeir óskuðu eftir því að Hörður Unnsteinsson kæmi til að ræða framlög útgerðarfélaga til stjórnmálaflokka og hugsanleg hagsmunatengsl; formaður, gjaldkeri og framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins til að ræða fjárframlög útgerðarfyrirtækja til flokksins og þingmanna hans og hugsanlega hagsmunaárekstra við afgreiðslu málsins; formaður, gjaldkeri og framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins til að ræða fjárframlög útgerðarfyrirtækja til flokksins, þingmanna hans og hugsanlega hagsmunaárekstra við afgreiðslu málsins.

Hvað er verið að gefa í skyn hér? Hvernig ætlum við að haga störfum í þinginu ef við ætlum til dæmis í hv. atvinnuveganefnd í hverju einasta máli, hvort sem það á við um ferðaþjónustuna, iðnfyrirtæki eða landbúnað, að kalla til stjórnmálaflokka? Stjórnmálaflokkar fá fjárframlög frá fyrirtækjum í öllum greinum atvinnulífsins, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sennilega í meira mæli en aðrir flokkar. Hvernig ætlum við að hafa umfjöllun um þessi mál? Um þetta gilda alveg skýrar reglur. Þær eru meira að segja miklu þrengri og takmarkaðri hér en við eigum að venjast á Norðurlöndunum eða um Evrópu um hvað fyrirtæki geta stýrt (Forseti hringir.) stjórnmálamönnum eða stjórnmálaflokkum. Það eru miklu þrengri reglur. Ef (Forseti hringir.) menn telja að verið sé að brjóta þær með einum eða öðrum hætti á það ekki heima á vettvangi atvinnuveganefndar.