142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[21:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Varðandi lagasetningu um fjármál og fjárreiður stjórnmálaflokka og samtaka og frambjóðenda er það rétt hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni að Kjartan Gunnarsson kom að þeirri vinnu þegar Sjálfstæðisflokkurinn sneri loksins við blaðinu og féllst á að fara þyrfti í slíka lagasetningu. Það er alveg rétt, hann á heiður skilið fyrir sitt starf. Ég var í því með honum og þekki vel til þess. Það væri áhugavert að vita meira um þau sinnaskipti sem urðu, en ég veit líka hitt af langri glímu að árum saman höfðum við barist fyrir því, forustumenn annarra flokka og þingmenn hér á þingi, að slík löggjöf yrði sett á Alþingi en það strandaði alltaf á Sjálfstæðisflokknum þangað til hann tók þessum sinnaskiptum.

Ég hef látið mér detta í hug að það hafi verið vegna þess að ábyrgir menn hafi séð að þetta gat ekki haldið áfram eins og það hafði gengið. Það var kannski ekki það sem menn höfðu mestar áhyggjur af þegar þarna var komið, hinir stóru styrkir sem gengu til sumra flokka, heldur sáu menn hversu baneitrað það var þegar einstaklingarnir sjálfir í prófkjörum, og ekki síður í sveitarstjórnarframboðum og kosningum en til Alþingis, voru orðnir allt of nálægt fyrirtækjum sem voru að veita þeim styrki, kannski verktakafyrirtækjum sem biðu eftir verkefnum hjá viðkomandi sveitarfélagi o.s.frv.

Á fundum í þessari nefnd ræddum við auðvitað ýmislegt sem engum leið vel með, sem viðgengist hafði. Það var ekki bara bundið við Sjálfstæðisflokkinn, það er alveg rétt. Menn urðu að lokum sammála um að það væri miklu heilbrigðara að styðja lýðræðið með framlögum frá hinu opinbera og draga úr því að stjórnmálaflokkar yrðu að gera út á styrki frá einkaaðilum.

Þegar ég var að rifja upp hvað hefði stimplast inn í þjóðarsálina á umliðnum árum — og það byggi ég á hundruðum funda og óteljandi samtölum við fólk um þessi mál á langri tíð — nefndi ég það að eitt af því sem mjög oft er nefnt, og var nefnt á þessum árum, það hefur dregið úr því núna vissulega, var að það særði réttlætiskennd fólks að sjá að einstaklingar, einkaaðilar, gætu auðgast um milljarða á milljarða ofan af því, ekki að hafa rekið ágæt fyrirtæki sem þeir áttu að fá endurgjald fyrir ef þeir seldu, heldur að hafa þennan aðgang að fiskimiðunum og að hann væri andlag gróðans. Það sem gerist er auðvitað það, maður er ekki bara að selja rekstur og fyrirtækin, skip eða hús heldur fyrst og fremst að selja aðganginn að miðunum. Það finnst mönnum ekki eiga að vera almennt uppspretta einkabundins gróða.

Var ég þar með að segja að þetta ætti við um alla í sjávarútvegi? Nei, það var ég ekki að gera. Það er ómaklegt að leggja þannig út af orðum manns. Ég er nefnilega alveg sammála því að að uppistöðu til er obbinn af þeim sem starfa í sjávarútvegi harðduglegt og heiðarlegt fólk og er ekkert að gera annað en vinna hörðum höndum að því að sinna sínum rekstri og færa björg í bú. Þannig er það og þannig hefur það verið og þannig verður það vonandi áfram. Það breytir ekki hinu að við eigum að þora að ræða um þessa hluti og ræða bæði kosti og löst á hlutunum.

Það eru ágallar við þetta fyrirkomulag sem hafa leitt til þess ósættis sem hér hefur verið. Það er alveg á hreinu. Þetta er eitt af því sem hefur sært réttlætiskennd þjóðarinnar og valdið þeim ágreiningi sem uppi er.

Númer tvö mætti nefna leigubraskið, þegar það komst í sínar hæstu hæðir. Þegar allt of rúmar reglur voru í gildi um það að menn gátu að uppistöðu til látið aðra hafa fyrir því að sækja aflann sem þeim hafði verið úthlutað rétturinn til og haft af því verulegar tekjur, fénýtt þennan rétt þannig ár eftir ár, veitt kannski helminginn annað hvert ár eins og þetta var hér á árabili. Auðvitað var algerlega galið að bjóða upp á það að kerfið gæti búið til óðalseigendur og leiguliða sem strituðu hörðum höndum og hinir hirtu arðinn af. Þannig hlutir urðu til þess að um þetta kerfi varð mikið ósætti. Ég hef oft sagt það við vini mína í röðum útgerðarmanna að ég held að þar hafi menn gert gríðarleg mistök í sinni harðskeyttu hagsmunagæslu að hafa ekki löngu fyrr tekið þátt í því með stjórnvöldum að taka fyrir vissa hluti í þessu kerfi sem hefur marga kosti þannig að frekar skapaðist sátt um það. Það er orðið framorðið í þeim efnum að reyna að lenda þessu og það verður ekki gert með innleggi af því tagi sem ríkisstjórnin leggur hér af stað með, það þarf meira til. Þetta fer í öfuga átt.

Við förum í sundur með þessum hætti, óttast ég, og ég held að viðbrögðin bendi til þess, þegar í raun og veru að mínu mati var ekkert langt í land að hægt væri að lenda þessu með ásættanlegum hætti. Efniviðurinn í lausn er að mínu mati til staðar í aðalatriðum. Það er úrvinnsla á því sem þarf. Það þarf samkomulags- og sáttavilja úr báðum áttum milli þeirra sem lengst vilja ganga í að umbylta þessu kerfi og hinna sem vilja bara verja sína hagsmuni í því eins og það er. Það eru auðvitað fyrst og fremst þeir sem hafa komið sér best fyrir í kerfinu sem eðlilega vilja helst engar breytingar af því að það hentar þeirra hagsmunum. En það má ekki eitt ráða för.

Auðvitað voru fleiri ágallar á þessu sem reyndust sjávarútveginum sjálfum ekki vel. Reyndist það sjávarútveginum vel að kvótaverðið skrúfaðist upp í þær brjálæðislegu hæðir sem það gerði? Og greinin skuldsetti sig og skuldsetti vegna hinna sem löbbuðu burtu og baksaði við að borga þær skuldir niður. Þegar kílóið var komið í 4 þús. kr. eða hvað þetta nú var. Geðveiki. Engin framlegð gat staðið undir því, jafnvel ekki afkastamesti sjávarútvegur í heimi að borga það niður á einhverjum eðlilegum afskriftatíma, jafnvel þótt við tækjum minnsta jaðarkostnað við að sækja þær veiðiheimildir. Það hafa útreikningar sýnt. Þetta var orðið að vitleysu og féll saman við útrásarvitleysisbóluárin.

Varðandi burði greinarinnar til að greiða veiðigjöld er hægt að nota ýmsa mælikvarða til að skoða það. Vissulega eru það meðaltalsmælikvarðar, en við sjáum til dæmis að hvað eiginfjárstöðu snertir og skuldastöðu er sjávarútvegurinn orðinn verulega sterkur á alla venjulega mælikvarða. Stór hluti fyrirtækjanna er að verða skuldlaus. Eiginfjársveiflan, eins og ég fór yfir á síðustu fjórum til fimm árum, er 250 milljarðar í plús, úr neikvæðri stöðu upp á 60 milljarða í jákvæða stöðu upp á í nágrenni við 200 milljarða núna. Það munar nú um það. Framlegðin er liðlega 80 milljarðar, erum við ekki sammála um það? Við skulum ekkert vera að deila um tölur. (Gripið fram í.) — Hvernig færðu það út? Ég nota gögn Hagstofunnar til dæmis. Ég nálgast þetta nú frekar með því að taka (Gripið fram í.) um það bil 80 milljarða. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður vill draga frá þeirri framlegðartölu hluti eins og tekjur af seldum veiðiheimildum eða hvernig hann lækkar hana þarna niður. (Forseti hringir.) Segjum þá bara 75 og tökum 13 milljarða í veiðigjöld. Samt er eftir 62 milljarða fjármunamyndun í grein sem veltir 250 milljörðum. (Gripið fram í.)Það er samt eftir fjármunamyndun, við erum að tala um EBIDTU hér, hv. þingmaður, sem er nú bara bærilegt.

Ef við lítum á þetta í sögulegu samhengi er þetta samt einhver mesta framlegð sem íslenskur sjávarútvegur hefur nokkurn tímann í sögu sinni búið við eftir veiðigjöld af þessari stærð. Það er þannig. Hvernig lifði hann þá af sum hin árin? Það er alveg rétt, það voru ekki góð ár hjá sjávarútveginum frekar en í annarri útflutnings- og samkeppnisstarfsemi þegar mesta ruglið var hér í gangi í hagstjórn í landinu á þensluárunum eftir 2003/2004.

Þegar kemur að þessu tali um að ríkisstjórnin sé sérstaklega að hugsa um litlu og meðalstóru fyrirtækin af mikilli umhyggjusemi sinni fyrir þeim — það vefst nú held ég samt fyrir mönnum að útskýra hvers vegna þarf þessa gríðarlegu lækkun á sérstökum veiðigjöldum hjá fyrirtækjum eins og Brimi, Fisk, Þorbirninum, Ögurvík, Stálskipi, Ramma, Vísi. Eru þetta lítil eða meðalstór fyrirtæki? Er víst að framlegðin þar eða afkoma þeirra bjóði ekki upp á að þau greiði eitthvað aðeins meira en stjórnvöld ætla sér að leggja til hér?

Það er þannig að botnfiskurinn eða bolfiskurinn með þessu, og afslátturinn sem gengur að mestum hluta til hans, verður kominn mjög neðarlega í greiðslu sérstaks veiðigjalds, nettó, á næsta fiskveiðiári. Ætli það verði ekki innan við 3 kr. á kíló þegar upp verður staðið? Ef við drögum frá áætlaðri brúttógreiðslu 1.800 milljónir vegna skuldaafsláttar og á fimmta hundrað milljónir vegna frímarks, stendur ekki mikið eftir. Vissulega kemur það ekki öllum fyrirtækjum í sama mæli til góða, en nettó verður greinin nánast orðin laus við sérstakt veiðigjald, botnfiskshlutinn. Það er rausnarlega gert, finnst mér, hjá hæstv. ríkisstjórn.

Ég gæti líka rætt dálítið um fjárfestingar í sjávarútvegi (Forseti hringir.) en hef ekki tíma til þess í þessari ræðu, herra forseti.