142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[18:42]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hef allt síðasta kjörtímabil og jafnvel frá hruni verið þeirrar skoðunar að breyta þurfi stjórnarskránni. Meginástæða þess er sú að við hrunið kom bersýnilega í ljós hversu vanmáttugt Alþingi var til að taka á aðsteðjandi vanda. Í raun varð þá ljóst hversu illa alþingismenn voru upplýstir um gang mála, þeir gátu ekki sett sig sem skyldi inn í þau mál sem þeir þurftu nauðsynlega að hafa þekkingu á. Ég hef talað um að með einum eða öðrum hætti þurfi að slíta á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds á svipaðan hátt og slitið var á milli dómsvalds og framkvæmdarvalds árið 1995.

Við framsóknarmenn studdum þá vegferð sem haldið var í og settum það að skilyrði, þegar við ákvæðum að verja minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vantrausti á vormánuðum 2009, að farið yrði í þessar breytingar. Þegar síðan ný ríkisstjórn tók við á vormánuðum 2009 var ákveðið, í raun ekki í samræmi við það sem við höfðum lagt til, að boða til þjóðfundar, stofna hina svokölluðu stjórnarskrárnefnd og síðan hið svokallaða stjórnlagaþing. Því miður gekk sú vegferð afar brösuglega og Hæstiréttur úrskurðaði að kosningin til stjórnlagaþings væri ólögleg. Ég og hv. þm. Birgir Ármannsson sátum þá í þeirri nefnd fyrir hönd minni hlutans. Ég studdi það að haldið yrði áfram með verkefnið og svokallað stjórnlagaráð skipað en þó með því skilyrði að Alþingi mundi fjalla efnislega um málið.

Mér fannst margir þeirra sem áttu sæti í þessu ráði mjög vel til þess hæfir að koma með tillögu að breytingu. Ég var hins vegar ósammála því að Alþingi tæki málið ekki til efnislegrar meðferðar og þótti það miður, þvert á það sem fullyrt var að yrði gert þegar ég ákvað að styðja meiri hlutann í að mynda stjórnlagaráð. Það var hins vegar ljóst undir lok síðasta kjörtímabils að það mundi aldrei nást að fara í þær breytingar sem ráðið lagði til að farið yrði í. Eins og það horfði við mér voru gerðir einhvers konar samningar um að það frumvarp sem lá fyrir yrði tekið af dagskrá vegna þess að í raun var ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur búin að missa meiri hluta sinn á þingi og þurfti aðstoð annarra flokka.

Sú niðurstaða að breyta breytingarákvæðinu var mér ágætlega að skapi og þegar það var samþykkt að eingöngu væri hægt að breyta henni með samþykki 2/3 greiddra atkvæða á Alþingi, og um leið þyrfti samþykki meiri hluta greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu, þó minnst 40% atkvæða kosningarbærra manna, taldi ég að við hefðum bæði belti og axlabönd þegar við færum í einhvers konar breytingar á stjórnarskránni. Í raun mundi þetta þýða að málefnalegri og efnislega betri umræða yrði um þær breytingar sem lagðar yrðu til. Ég tek undir með þeim sem hafa sagt hér í umræðunni að það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að stjórnarskrárbreytingar fá afar litla umfjöllun í kosningabaráttu, það eru önnur og stærri mál sem snúa beint að kjósendum þannig að stjórnarskrárbreytingarnar fljóta í gegn. Það gerðist í raun núna líka.

Ég lýsi því yfir að ég er jákvæður fyrir þessari breytingu. Ég er enn þeirrar skoðunar að breyta þurfi stjórnarskránni. Ég set engu að síður það mikilvæga skilyrði að Alþingi fjalli efnislega og málefnalega um þær breytingar sem lagðar verða til og gefi sér góðan tíma í að ræða þær. Það var ekki langt á milli aðila varðandi til dæmis breytingar á hinu svokallaða auðlindaákvæði — mig minnir að ég og hv. þm. Skúli Helgason, sem nú er horfinn af Alþingi, höfum verið sammála um að jafnvel eitt orð skildi á milli, ekki meira en það. Það var þó nóg og hvert orð skiptir vissulega máli í stjórnarskránni.

Ég held að vel fari á því að breið og góð samstaða myndist um að þetta álit verði að veruleika. Ég mun reyna að greiða götu þess eins og mér er unnt eins og ég hef gert varðandi þær breytingar á stjórnarskránni sem reynt var að hrinda í framkvæmd á síðasta kjörtímabili.