142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[21:31]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. atvinnuveganefnd, formanni og meiri hluta og minni hluta, fyrir ágætt starf við þetta frumvarp um veiðigjöld. Ég skil vel þá niðurstöðu sem hv. formaður, Jón Gunnarsson, kom hér með og yfirlýsingu þess efnis að draga breytingartillöguna til baka.

Það er ljóst að við erum að fara hér fram með bráðabirgðaákvæði til eins árs í anda stjórnarsáttmálans um að lækka veiðigjöld, sérstaklega á þá sem gátu illa staðið undir þeim, koma til móts við minni og meðalstór fyrirtæki. Út af stendur að í ákveðnum fiskstofnum, ákveðnum tegundum, er ljóst að veiðigjaldið sjálft er mjög hátt hlutfall af kostnaði við veiðarnar. Sérstaklega má nefna kolmunna sem er að stóru leyti veiddur utan íslenskrar lögsögu og er mjög dýrt að sækja. Það má líka nefna tegundir eins og gulllax, keilu, blálöngu, rækju, úthafsrækju, og jafnvel mætti nefna fleiri tegundir.

Í ljósi þeirrar niðurstöðu finnst mér gott tækifæri til að koma hér upp og lýsa því yfir að strax í sumar muni ég skoða ásamt veiðigjaldsnefnd hvernig þessu er háttað varðandi þessar tegundir og hugsanlega fleiri tegundir sem þar eru undir og leggja fram frumvarp strax á fyrstu dögum haustþings til að bregðast við því ef við metum það svo, sem mjög líklegt er, að í einstökum tegundum sé veiðigjaldið óhóflega hátt miðað við kostnaðinn við veiðarnar.

Þetta geri ég, hæstv. forseti, einfaldlega vegna þess að mikilvægasta verkefni okkar, ríkisstjórnarinnar og Alþingis, er að skapa grundvöll fyrir allar atvinnugreinar, ekki síst sjávarútveginn, að sækja fram, geta farið í nýsköpun, geta farið í nýfjárfestingar sem skapa meiri arð til lengri tíma sem standa undir veiðigjöldum framtíðarinnar, auðlindarentu sem skilar sér til þjóðarinnar til lengri tíma. Það er mjög mikilvægt.

Ég mun hefja þessa vinnu. Vinnan við ný veiðigjöld, nýtt frumvarp til veiðigjalda sem tekur þá gildi frá og með næsta fiskveiðiári, í það minnsta ekki seinna, er þegar hafin í ráðuneytinu. Við munum í ljósi þessa leggja fyrstu áhersluna á að skoða þær sérstöku tegundir þar sem kostnaður við veiðarnar er óhóflegur og veiðigjöldin geta lagst of þungt á. Ég vil fullvissa þingheim um að við munum skoða það í ráðuneytinu og ég fullvissa hv. atvinnuveganefnd um fullan vilja ráðherra til að skoða þessi mál og skila frumvarpi þess efnis á fyrstu dögum haustþings.