142. löggjafarþing — 23. fundur,  5. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[00:02]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þetta er búið að vera aldeilis lífleg umræða. Í kosningabaráttunni var talað um það alls staðar þar sem maður kom að það vantaði peninga í heilbrigðiskerfið, það vantaði peninga í löggæsluna, það vantaði peninga í menntakerfið. Í raun var bara öll grunnþjónusta að hruni komin í þessu landi. Það er ekkert skrýtið miðað við það sem á hefur gengið hér síðustu árin. Á sama tíma og þetta er að gerast er verið að lækka veiðileyfagjald á útgerð í landinu sem aldrei hefur staðið betur — aldrei.

Ég vil líka minna ykkur á að á síðustu áratugum hefur gengið á Íslandi verið fellt trekk í trekk til að bjarga útgerðinni frá gjaldþroti. Hverjir báru þær byrðar? (Gripið fram í: Almenningur í landinu.) Almenningur í landinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Núna þegar svona vel gengur hjá þessari atvinnugrein eiga þeir bara að vera menn til þess að borga þetta og vera stoltir af því. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það er það sem á að gerast. Þannig er það. Svo getum við rætt það seinna að lækka.