142. löggjafarþing — 25. fundur,  10. sept. 2013.

störf ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:50]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Við komum saman á ný til starfa hér í sal Alþingis eftir sumar sem eins og oft áður hefur verið misgjöfult á sólríka daga eftir því hvar á landinu hefur verið mælt. Við þekkjum vel slíka misskiptingu á landinu okkar.

Við ræddum hér í vor um vanda sem margir bændur stóðu frammi fyrir vegna kalskemmda og fór sannarlega ónotatilfinning um mann allan fyrir þremur vikum þegar spáð var illviðri og margir brugðu á það ráð að flýta göngum og réttum minnugir afleiðinga óveðurs sl. haust, en ég trúi að nú horfi mun vænlegar til í þeim sveitum sem verst urðu þar úti.

Virðingu Alþingis höldum við þingmenn á og það er okkar að gæta hennar. Hver þingmaður hlýtur að spyrja sig hvert framlag hans verður til betri ásýndar og virðingar Alþingis. Ég tek því alvarlega og segi: Ég hef reynslu af ágætu og árangursríku samstarfi við fólk hvar í flokk sem það skipar sér. Ég átti til að mynda ágætt samstarf við ríkisstjórnina sem var hér síðasta kjörtímabil um málefni landbúnaðar. Ekki er þar með sagt að ég hafi verið ánægður eða sammála áherslum hennar á öllum sviðum og því miður var ekki sama hægt að segja um samstarf hennar við margar aðrar atvinnugreinar. En þar sem er friður og samstaða ber okkur að varðveita hana og breiða út og þar sem er ófriður ber okkur að sækja fram og stilla til friðar.

Hin kalda staðreynd er sú að ekki er hægt að búast við að endurreisa hratt kaupmátt launa í stórum stökkum, ekki frekar en hægt er að bæta allt sem hefur þurft að draga saman á undanförnum árum. Það má samt með margvíslegum hætti feta nýjar slóðir til að hefja hér endurreisn kaupmáttar og kjara. Í samfélaginu er ekki mikill ágreiningur um hvað beri að hafa í forgang og hverju beri fyrst að hlúa að. Ég gæti talið upp alla þá málaflokka, en ég tel að við getum orðað það með því einu að segja: Við viljum hlúa að heimilinu og fjölskyldunni. Undirstaða velferðar fjölskyldu er öflugt atvinnulíf. Það er ekki hægt að búast við viðsnúningi í þjóðfélaginu nema takist að efla enn betur og bæta atvinnulíf okkar en atvinnulífið sýnir ekki nægilegan frískleika til þess að okkur takist að fá almennilegan byr í seglin.

Atvinnuveganefnd Alþingis hefur undanfarna daga heimsótt fyrirtæki. Ég vil fyrst nefna að sóknarhugur og framfarahugur er almennt hjá fólki. Margir hafa á teikniborðinu arðsamar framkvæmdir og eru tilbúnir til sóknar. Ótrúlega margir gátu hins vegar ekki sagt okkur hvenær þeir gætu hafist handa vegna þess hve stjórnsýsla okkar er þung og erfið, umsókn um byggingarleyfi, breytingar á skipulagi og slíkir þættir taki of langan tíma. Það er hreinlega farið að hamla framförum og sókn hve þunglamaleg stjórnsýslan er hér. Það er ekki einleikið að upplifa sömu athugasemd í mörgum atvinnugreinum og þarna er greinilega verk að vinna.

Fyrir um áratug kynntist ég álíka viðhorfi við umræðu í einu af nágrannalöndum okkar. Þar var hrundið af stað miklu einföldunarátaki til aukinnar skilvirkni. Mögulega var þar verðmætasta breytingin sú að lofað var ákveðnum afgreiðslutíma innan stjórnsýslunnar, að ef ekki tækist að standa við tímafresti af hálfu hins opinbera ætti umsækjandi rétt á skaðabótum í formi dagsekta. Hið opinbera kerfi lofaði sem sagt ákveðnum gæðum á þjónustu sinni og skilvirkni.

Annað sem stóð upp úr var eftirlitskostnaður. Það fer ekki fram hjá þeim sem rekur fyrirtæki að leyfafargan og eftirlitskostnaður hefur blásið út á nokkrum árum, enda kemur það nú í ljós í skýrslu OECD um landbúnað að eftirlitskostnaður hefur vaxið í landbúnaði um 50% af hálfu hins opinbera á undanförnum árum, fyrir utan gríðarlega hækkun ýmissa leyfisgjalda sem lögð hafa verið á framleiðendur beint. Samkvæmt þeim furðulegu rétttrúnaðarreglum sem OECD notar mælist hærri eftirlitskostnaður sem aukinn opinber stuðningur við landbúnað.

Ég hef nefnt hér tvö dæmi sem ég upplifi að atvinnulífið telji hamla sér til sóknar, stjórnsýslu og eftirlitsiðnað. Enginn má samt skilja orð mín svo að slíkir þættir eigi ekki að vera öflugir og sterkir, en minna og hóflegra er oft betra.

Mér er hugleikið að nefna hér nýsköpun og sóknarhug fyrirtækja. Gleymum samt ekki því sem við þegar eigum og getum byggt á. Við þurfum atvinnugreinar sem skapa gjaldeyri og spara gjaldeyri. Við þurfum innihaldsríkari umræðu um atvinnuvegi okkar, hvort sem við tölum um iðnað, sjávarútveg, landbúnað eða þjónustugreinar. Umræðan um veiðileyfagjald á að vera umræða um hvernig sjávarútveg við viljum hafa. Það þarf sem dæmi að endurnýja og bæta fiskiskipaflotann. Það getum við meðal annars gert með því að hlúa að íslenskum skipasmíðaiðnaði. Þar eru mikil færi til aukinnar atvinnu og aukinnar verðmætasköpunar.

Virðulegi forseti. Með tilvísan í það sem ég hef áður sagt um nauðsyn samstöðu vil ég segja almennt um það stjórnmálaviðhorf sem blasir við okkur nú á fyrstu dögum þessa hausts að ástandið er viðkvæmt, fjárhagur margra heimila og fyrirtækja er viðkvæmur. Þess vegna er okkur svo mikilvægt að vera raunsæ. Við erum ólík, hagsmunir eru mismunandi, viðhorfin eru ólík. Það er okkar að virða þau og leiða saman. Því segi ég: Við þurfum að ganga í takt og við skulum ekki láta það angra okkur þó að skórnir séu hvor af sínu tagi ef við berum gæfu til þess að ganga leið til sóknar.