142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

eignarréttur lántakenda.

[15:02]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Mér finnst stundum svolítið sérkennilegt að hlusta á umræðu af þessu tagi, að eignarréttur lántakenda sé varinn, nauðungarsölum frestað o.s.frv. Þetta hefur alltaf verið þannig, eignarréttur er varinn, nauðungarsölum er frestað meðan leyst er úr ágreiningi. Eru menn allt í einu að halda því fram að svo sé ekki núna og hafi ekki verið?

Ég er gamall uppboðshaldari í Reykjavík. Ég er búinn að sinna mörgum skjólstæðingum sem lögmaður sem hafa þurft að þola fullnustuaðgerð af þessu tagi. Ég veit eiginlega ekkert um hvað menn eru að tala. Ég veit hins vegar af vanda margra. Það er ekkert þannig að þeir sem telja sig hafa málsvarnir um það að lánið sé ólögmætt fái ekki úrlausn dómstóla áður en hægt er að leysa úr réttmæti þess. Það gerist ekki þannig. Þessi umræða er öll mjög sérkennileg og menn mega ekki gleyma því heldur að lánveitandinn hefur óbein eignarréttindi í fasteigninni. Hann borgaði hana, jafnvel að öllu leyti eða að langmestu leyti.

Vandamálið er að þær eignir sem raunverulega er verið að selja á nauðungarsölu í dag — það er vegna þess að menn hafa ekkert verið að fara með ágreininginn fyrir dóm. Menn hafa jafnvel ekki greitt krónu. Þeir sem hafa greitt samkvæmt greiðslu eins og var fyrir hrun og haldið því fram að þetta (Forseti hringir.) væri ólögmætt, hefðu þeir bara haldið þeirri greiðslu áfram eru hagsmunir lánveitenda að halda viðkomandi meðan leyst er úr ágreiningi. Það er ekki alltaf hagur manna að selja.