143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[10:55]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Óvissunni sem ríkt hefur í íslenskum sjávarútvegi á síðasta kjörtímabili verður að linna. Hún hefur endurspeglast í lítilli fjárfestingu, fjárfestingu sem er ekki nema svona einn fimmti af því sem eðlilegt er að greinin fjárfesti fyrir á ári, þessi grunnatvinnugrein, grunnstoð íslensks samfélags sem sjávarútvegurinn er.

Hér var sagt áðan að það hefði alls ekki mátt lækka veiðigjaldið, hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir orðaði það með þeim hætti. Er það rétt nálgun? Á það að vera boðorð að við tökum ekki mið af afkomu einstakra greina innan sjávarútvegsins heldur látum skattheimtuna ráða för? Nei, það er sú ákvörðun sem við tókum í sumar, núverandi stjórnarmeirihluti, við ákváðum að lækka veiðigjaldið á þau fyrirtæki sem gátu augljóslega ekki staðið undir því veiðigjaldi og frekari hugmyndum sem um það höfðu verið fram lagðar og við hækkuðum það á þá sem gátu borið þyngri skerf núna. Niðurstaðan varð sú að það varð lækkun upp á 3 milljarða miðað við óbreytt ástand. Og það vita allir sem um þetta fjalla að það var alveg galið að fara að tala hér um einhverjar frekari hækkanir inn í framtíðina. Slíkt hefði farið svo illa með þessa grunnstoð samfélags okkar að hún hefði ekki átt sér viðreisnar von til lengri tíma.

Við þurfum núna að auka umsvif sjávarútvegs með öllum ráðum og við þurfum að reyna að tryggja að rekstrarumhverfið verði stöðugt til næstu ára í íslenskum sjávarútvegi. Það gerum við með því að ganga frá samningum við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki til lengri tíma þannig að þau geti farið í þær fjárfestingar og þá uppbyggingu sem nauðsynleg er. Og við sjáum þess strax merki að slíkt er að gerast.

Það er margt sem stjórnvöld geta gert í þessu, að ganga skynsamlega frá samningum um veiðiréttindi og um greiðslu veiðigjalda. Við getum einnig farið aðrar leiðir. Ég er á þeirri skoðun að endurskoða þurfi þá aflareglu eða veiðireglu sem farið var hér fram með og að við eigum að eiga svigrúm til þess að hækka veiðiheimildir í þorski um 20 þús. tonn á yfirstandandi fiskveiðiári. Þjóðarbúið þarf á því að halda að fá þessar tekjur inn og ég vil að sest verði niður með vísindamönnum okkar, farið yfir þær breytingar sem við þurfum að gera gagnvart Alþjóðahafrannsóknaráðinu og markmiðið verði það að við náum að bæta við 20 þús. tonnum á yfirstandandi fiskveiðiári. Það mundi gefa enn frekari vítamínsprautu inn í starfsemi bolfisksfyrirtækjanna sem þurfa á því að halda og það mundi hvetja til enn frekari fjárfestingar og verðmætasköpunar í íslensku samfélagi.