143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:52]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst hvað varðar Ríkisútvarpið. Það er í sjálfu sér svolítið skiljanlegt að hér hafi myndast ákveðinn misskilningur um fjárhagsstöðu stofnunarinnar hvað varðar næsta ár. Þannig er að af þeim 715 milljónum sem stóð til að Ríkisútvarpið ætti að fá fær stofnunin einungis 215. Það er meðal annars til að koma til móts við það að gerðar eru breytingar á möguleikum Ríkisútvarpsins til að afla sér tekna á auglýsingamarkaði þannig að, og þar liggur undir mat stofnunarinnar sjálfrar, tekjumöguleikar hennar skerðast sem samsvarar um 395 milljónum. Sé horft til þess er um að ræða umtalsverðan niðurskurð til stofnunarinnar, þ.e. það eru umtalsvert minni fjármunir sem stofnunin hefur á milli handanna á næsta ári en á þessu. Það er því í sjálfu sér gerð mun ríkari aðhaldskrafa á Ríkisútvarpið en flestar aðrar stofnanir.

Nú kann að vera að menn hafi mismunandi skoðanir á því hversu heppilegt það er. Sumum finnst það of mikið, öðrum finnst það of lítið, en sú er staðan. Þess vegna er það rangt sem hefur komið fram í fjölmiðlum. En enn og aftur er skiljanlegt þegar menn hafa einungis texta fjárlagafrumvarpsins til að styðja sig við að þeir komist að þeirri niðurstöðu að um sé að ræða hækkun. Það er öfugt eða snýr nákvæmlega hinsegin, þ.e. um er að ræða skerðingu.

Hvað varðar framhaldsskólann og styttingu náms erum við sammála um það, ég og hv. þingmaður. Enn og aftur tel ég að færa þurfti alveg sérstök rök fyrir því ef Ísland á að halda áfram að hafa 14 ára nám fram að stúdentsprófi, eitt OECD-ríkjanna. Það er líka mjög áhugavert að fylgjast með og skoða tölur um það hversu lengi íslenskir námsmenn á framhaldsskólastiginu eru að klára það nám sem er sett fyrir og bera það til dæmis saman við önnur Norðurlönd og (Forseti hringir.) OECD. Því miður er staðan ekki okkur í vil, það verður að segjast eins og er. Þar er virkilega svigrúm til þess að bæta stöðu mála.