143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:12]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta eru spurningar sem hver og ein fyrir sig gæti kallað á dálítið lengra svar en ég hef hér samanlagt til umráða fyrir þær allar.

Í fyrsta lagi varðandi niðurskurð til framhaldsskólanna, það er ekki svo að rekstrinum sé hlíft að einhverju leyti heldur er honum hlíft, þ.e. framlagið til framhaldsskólanna er ekki skorið niður á þessu ári og er það í fyrsta sinn síðan 2007 sem sú staða er uppi. Breytingar verða auðvitað hjá einstaka skóla vegna breytinga á nemendafjölda og öðru slíku sem reiknilíkanið margfræga kallar fram, en það er ekki gerð aðhaldskrafa. Það er ekki þannig að þeim sé að einhverju leyti hlíft, þeim er hlíft hvað það varðar. (Gripið fram í.)

Þá kemur að átakinu Nám er vinnandi vegur. Ég fór yfir það hér áðan að þær breytingar sem hafa orðið eru mjög miklar á þeim nemendafjölda sem er í þessu úrræði, breytingarnar hlaupa á hundruðum nemenda. Þegar að því kemur að taka ákvarðanir um hvar við skerum niður, hvar niðurskurðurinn kemur þá verðum við auðvitað að horfa til þess hvar mesta þörfin er og hún er inni í framhaldsskólunum sjálfum og rekstri þeirra. Hvar er þá tækifæri til þess að spara? Það er þarna. Það eru enn töluverðir peningar frá fyrri árum undir þessum lið sem ekki er búið að nýta og að sjálfsögðu hljótum við þá að horfa til þess hvar þörfin er mest, hvar eldarnir brenna heitast, og það er í rekstri framhaldsskólanna sjálfra. Þess vegna er ánægjulegt að við þurfum ekki að skera niður áfram hvað það varðar.

Hvað varðar innleiðinguna þá eru á safnliðum ráðuneytisins, þegar saman er tekið, nokkrir fjármunir sem hægt verður að nota til þessa. Það eru ekki miklir fjármunir, það er víst alveg ábyggilegt, og verður að fara mjög vel með. Ég mun síðar vera tilbúinn að taka langar umræður um mikilvægi þess að stytta nám til stúdentsprófs og hvers vegna við Íslendingar einir þjóða tökum 14 ár til grunnskólagöngu þegar allar aðrar þjóðir OECD eru annaðhvort með 12 eða 13. Það þarf að færa, finnst mér alla vega, nokkuð sterk rök fyrir því af hverju við ein eigum að vera með það fyrirkomulag, hvers vegna það eigi að vera. (Forseti hringir.)

Hvað varðar háskólana (Forseti hringir.) þá tel ég að það sé einmitt vegna þess að okkur vantar (Forseti hringir.) fjármuni þar inn. Því er nauðsynlegt að halda áfram þeirri vinnu sem m.a. (Forseti hringir.) var hafin af hálfu hv. þingmanns (Forseti hringir.) þegar viðkomandi var hæstv. ráðherra, sem fólst í samstarfsnetinu sem lagði grunn að því að (Forseti hringir.) haldið yrði áfram að (Forseti hringir.) sameina skólana.