143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:02]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég er ánægður að heyra af áherslum hæstv. innanríkisráðherra í umferðaröryggismálum og öryggismálum almennt, ég deili þeirri sýn hæstv. ráðherra á málaflokkinn að það eigi að vera grundvallaratriði í ákvarðanatöku í samgöngum hvernig við getum aukið umferðaröryggi.

En mig langar til að forvitnast um tvö atriði í frumvarpinu hjá hæstv. ráðherra. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um að 250 millj. kr. verði varið til að finna viðunandi lausn í samgöngum á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja, hvort sem sú lausn felst í því að leigja tímabundið ferju eða fara í útboð, hönnun og smíði á nýrri ferju. Nú stóð ég í þeirri trú sem fyrrverandi þingmaður Suðurkjördæmis að í raun og veru væri enginn valkostur annar en að taka í notkun og smíða nýja ferju fyrir árið 2015. Mig langar til að spyrja hvernig þetta mál standi og hvaða skýringar eru á því að menn virðast enn þá vera að velta fyrir sér hver séu réttu næstu skrefin í þessum efnum.

Svo langar mig til þess að spyrja um annað lítið mál sem ég hef spurt um áður og verið vændur um hér í þinginu að sofa ekki á nóttunni yfir en það er nú ekki þannig. Ég er hins vegar mikill áhugamaður um gerð göngubrúar yfir Markarfljót. Hér er gert ráð fyrir því að niður falli 45 millj. kr. tímabundið framlag sem samþykkt var á síðasta ári vegna gerðar göngubrúar yfir Markarfljót. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um stöðu þessa máls, hvort ákveðið hafi verið að falla frá þessari fyrirætlan eða hvernig þeir fjármunir sem samþykktir hafa verið í verkið hafi verið nýttir og hvar málið sé statt.

Þetta er ekki stórt mál og ekki háar fjárhæðir sem þarna um ræðir en getur skipt miklu máli fyrir hagsmunaaðila á svæðinu, þá er ég að tala um rekstraraðila í Húsadal, Ferðafélag Íslands í Langadal og Útivist sem hafa sameinast í félagi sem heitir Vinir Þórsmerkur, ásamt með sveitarstjórnarmönnum og hagsmunaaðilum í Rangárþingi eystra þar sem þetta skiptir miklu máli. Ódýrt og lítið mál sem getur haft mjög virðisaukandi áhrif í för með sér vegna þess að brúin tengir saman svæði. Ég minni líka á það út frá öryggisvinklinum að fólk hefur lokast inni í Þórsmörk tvisvar sinnum á síðustu þremur árum í náttúruhamförum og með brúnni fæst mikilvæg flóttaleið fyrir tiltölulega litla fjármuni.