143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:13]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir áherslur hv. þingmanns í þessum málum. Ég get jafnframt upplýst hv. þingmann varðandi það sem nefnt er hér um að fjölga starfsfólki hjá Útlendingastofnun, að það var gert. Það hefur sem sagt verið reynt að fjölga starfsfólki bæði núna í sumar og einnig á síðasta kjörtímabili og það skilaði árangri. Það var sem sagt þannig. Til eru um það dæmi og farið var í athugun á því að fjölgun starfsfólks í Útlendingastofnun í þessum verkefnum þýddi hraðari málsmeðferð og minni kostnað. Það er algjör fylgni þar á milli.

Hins vegar er niðurstaðan af yfirlegu okkar yfir þessu máli sú að það eitt og sér nægi ekki. Verklagsreglurnar verða að breytast og þeir sem að málaflokknum starfa verða að hafa ríkari og skýrari heimildir til að vinna á þann veg sem ég fór yfir hér áðan, þannig að hægt sé að svara innan 48 klukkustunda. En það er alveg hárrétt, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, að þetta á ekki bara við um þau mál er lúta að hælisleitendum. Málsmeðferðin tekur of langan tíma, er of kostnaðarsöm og lýtur það meðal annars að því að við höfum ekki nægan hóp af fólki til að vinna að málum en einnig virðist regluverkið vera þannig að það tekur of langan tíma að vinna að þeim.

Það var mjög athyglisvert að fara til Noregs og hitta þá aðila sem verið hafa að vinna að breytingum þar. Þeir eru með svipaða löggjöf og við og fóru í ákveðnar breytingar sem sýndu að að jafnaði tók það norsk stjórnvöld 383 daga að afgreiða umsókn hælisleitanda. Þegar það var greint hvernig sú vinna var framlögð, eða hvernig var unnið að málefnum hælisleitandans, þá fóru 2,5 vinnudagar í að vinna raunverulega að hans málum, hinn tíminn fór í bið. Við viljum reyna að læra af þessari reynslu og tryggja að við forgangsröðum betur og nýtum fjármagnið sem við höfum betur.