143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:42]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekkert að fjargviðrast um það hvort heildarútgjöldin hafi hækkað eða lækkað. Hækkunin í heilbrigðismálum er fyrst og fremst jafnlaunaátakið sem menn kveinkuðu sér svolítið undan en farið var í engu að síður. Venjan hefur verið sú að ef um er að ræða launabreytingar fara þær inn í grunninn, en það skapar ekki svigrúm til þess að lækka aðra þætti. Hins vegar voru dregnar til baka skerðingar á framlögum eða millifærslum á leigugjöldum á milli heilbrigðisstofnana og fasteigna ríkisins. Það er líka liður sem fer út og inn. Þegar menn svo bæta við, þótt það séu bara 10–15 milljónir á litla stofnun úti á landi vegna þess að til standi að ná einhverjum árangri vegna sameininga eða bara eins og á Akranesi þar sem gerð er krafa um 43,5 milljónir til þess að taka niður svið sem var búið að gera samkomulag um að menn létu í friði vegna þess að farið var í 125 milljóna niðurskurð þar á sínum tíma. Þetta finnst mér vont. Menn verða að standa við það sem sagt var og passa að þarna sé ekki höggvið aftur. Ég orðaði þetta þannig: Við vorum búin að gera samkomulag um að taka aðra höndina af en nú kemur nýr ráðherra og tekur hina. Þetta má auðvitað ekki gerast. Ég treysti á að þetta verði lagað. Það er sem sagt svona lagað hjá einstökum stofnunum.

Það hefur engan tilgang í sjálfu sér að lengja þetta. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna. Ég heyri að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er tilbúinn að breyta frumvarpinu í samræmi við vilja þingsins. Við munum taka þátt í þeirri vinnu og óska eftir því að allt þingið verði haft í samráði varðandi þær breytingar.