143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[15:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að byrja á því að bera af mér sakir. Við jafnaðarmenn sjáum ekki neikvæðar hliðar á því að lækka skatta, hvorki í þessu landi né öðrum löndum. Auðvitað er full ástæða til þess að lækka skatta þegar svigrúm er til þess. Spurningin hér er á hverja við lækkum skatta. Ég tel að það sé langtum betra pólitískt, samfélagslega og líka efnahagslega að lækka fyrst og fremst skatta á þá sem hafa meðaltekjur í landinu og þaðan af lægri tekjur því að það sé miklu líklegra til þess að örva efnahagsstarfsemina, auka neyslu og fjárfestingu, heldur en hitt að lækka skatta þeirra sem mest eiga og mest hafa og eru líklegastir annaðhvort til að sitja á sínu eða eyða því helst á Flórída.

Virðulegur forseti. Ég verð að segja þegar hæstv. fjármálaráðherra nefnir vaxtastigið í landinu að þar finnst mér gæta nokkurs vanmats. Staðreyndin er auðvitað sú að vaxtastig hefur ekki verið lægra í langan, langan tíma. Ríkissjóður hefur ekki fjármagnað sig á jafn lágum vöxtum og nú eru. Það er í raun og veru algerlega ótrúlegt vaxtaumhverfið á Íslandi í augnablikinu.

Ég tel að helsta vanmat ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum landsins felist í því að átta sig ekki á þeim breytingum sem fram undan eru ef við berum gæfu til þess að brjótast út úr höftum og ná samningum við kröfuhafa um uppgjör hinna stóru þrotabúa. Slík aðgerð mun draga verulega úr framboði á fjármagni á Íslandi því að hér verða ekki peningar bundnir í landinu lengur. Sú stóra breyting er ákaflega líkleg til þess að hækka mjög vaxtastigið í landinu. Þess vegna þurfa menn að fara mjög varlega í því að eyða þeim peningum (Forseti hringir.) sem hugsanlega vinnast í slíkum samningum við kröfuhafa. Vaxtareikningur ríkissjóðs getur auðveldlega hækkað verulega í beinu framhaldi.