143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[15:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi breytingar á tekjuskattsprósentunni. Hér hafa menn komið og hv. þingmaður þeirra á meðal og talað um að sanngjarnara væri að fara í einhvers konar annars konar breytingar á tekjuskattinum, t.d. að lækka frekar lægsta þrepið eða hækka persónuafsláttinn, hækka frítekjumarkið. Það er eðlilegt að skiptar skoðanir séu um þetta.

Mér finnst mjög mikilvægt að rifja upp að skattprósentan var 23,5%. Þeir sem greiða núna skatt sem er 25,8% hafa þannig tekið á sig 2,3 prósentustiga hækkun sem ekki hefur verið leiðrétt. Við stígum skref í átt til þess að fara aftur til þeirrar skattprósentu sem áður var. Þeir sem eru í lægsta þrepinu eru hins vegar með lægri skattprósentu en áður gilti, 23,5%.

Nú kann að vera að mönnum hafi þótt þetta vera sanngjörn og skynsamleg breyting, þ.e. að hækka dálítið hressilega skattinn á alla þá sem eru vel undir meðaltekjum og í meðaltekjum. Ég er bara ósammála því. Við erum að vinda ofan af þeirri aðgerð að hluta til hér.

Hv. þingmaður kom inn á Fæðingarorlofssjóð, en hann var auðvitað skertur mjög verulega milli áranna 2009 og 2012, úr 13,1 milljarði niður í 7,3 milljarða, eða skertur um 5,8 milljarða. Þessar greiðslur til Fæðingarorlofssjóðs eiga alls ekki að ógna stöðu hans á næsta ári. Ég gæti komið aðeins nánar inn á bankaskattinn í síðara andsvari.