143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

staða Landspítalans.

[15:36]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er alvarlegt ástand á höfuðsjúkrahúsi landsins, Landspítalanum. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að samþykkja þessa umræðu í dag og ég vænti þess að allir alþingismenn geri sér grein fyrir því að staða sjúkrahússins er grafalvarleg. Því miður gætir þessa skilnings ekki í fjárlagafrumvarpinu enda er meira kapp lagt á að lækka veiðigjöld og skatta en að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins. Landspítalinn hefur heldur betur lagt sitt af mörkum í þeim erfiða niðurskurði sem þurfti að fara í í kjölfar hrunsins. Ég undirstrika það að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur mat það svo að ekki yrði lengra gengið gagnvart sjúkrahúsunum og heilbrigðisstofnunum og því var enginn niðurskurður til þeirra á þessu ári.

Fjárveitingar til Landspítalans voru þvert á móti auknar vegna tækjakaupa. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er um raunniðurskurð að ræða til Landspítalans á næsta fjárlagaári. Ekki er tekið tillit til þeirrar magnaukningar sem orðið hefur í þjónustu á sjúkrahúsinu og fjármuna sem vantar vegna jafnlaunaátaks til heilbrigðisstétta. Þessi halli nemur um 1 milljarði og hann mun halda áfram að safnast upp á næsta ári verði ekkert að gert.

Þá vantar sjúkrahúsið um 1,5 milljarða til að geta gert nauðsynlegar skipulagsbreytingar til að efla starfsemi sjúkrahússins og sameina á einn stað ákveðna þætti starfseminnar. Forsvarsfólk LSH leggur áherslu á að lokið verði við gerð K-byggingarinnar svokölluðu en þá er hægt að bæta starfsaðstöðuna og vinna sig í átt til fyrri áætlana um endurnýjun húsakosts á Landspítalanum. Þegar hefur verið farið í útboð vegna tækjakaupa fyrir næsta ár og um 600 millj. kr. þarf til að tryggja að hægt verði að fylgja fyrri áætlun. Ekki lítur út fyrir að hún breytist mikið þrátt fyrir boðaða endurskoðun nýs ráðherra á þörf fyrir tækjakaup.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að óánægja starfsfólks á Landspítalanum fer vaxandi. Sú óánægja snýr ekki síst að þeirri staðreynd að þær fyrirætlanir sem uppi voru um endurnýjun húsakosts sjúkrahússins eru nú í uppnámi og ekki virðist mikill skilningur á þörfinni hjá núverandi stjórnvöldum. Landspítalinn er á 16 stöðum í um 100 húsum. Óhagræðið er augljóst og stjórnendur sjúkrahússins leggja áherslu á að nálægð milli deilda auki öryggi sjúklinga og styrki faglega vinnu. Endurnýjun á húsakosti sjúkrahússins er mikilvæg til að mæta nútímatækni og -þörfum. Sjúkrahúsið er hjarta heilbrigðiskerfisins sem styður alla aðra heilbrigðisþjónustu í landinu. Ef við forgangsröðum ekki í þágu Landspítalans gröfum við undan öllu heilbrigðiskerfinu.

Þjónustan verður lakari, senda þarf fleiri sjúklinga til útlanda og færri sérfræðingar velja að starfa á Íslandi. Þá minni ég á það rekstrarhagræði sem mun skapast af endurnýjuðum húsakosti Landspítalans.

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra eftirfarandi spurninga:

1. Er hæstv. heilbrigðisráðherra að láta vinna tímasetta áætlun um endurbyggingu húsnæðis Landspítalans?

2. Er hæstv. heilbrigðisráðherra sammála stjórnendum LSH um að nauðsynlegt sé að ljúka við K-bygginguna til að hægt verði að efla starfsemi sjúkrahússins strax á næstu missirum?

3. Mun hæstv. ráðherra tryggja fjármuni til tækjakaupa í samræmi við endurskoðaða tekjukaupaáætlun fyrir árið 2014?

4. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að mæta þörfinni fyrir aukna rekstrarfjármuni sjúkrahússins sem endurspeglast í halla yfirstandandi árs?

5. Hefur hv. formaður fjárlaganefndar haft samráð við hæstv. heilbrigðisráðherra í þeirri viðleitni sinni að finna þá 12–13 milljarða sem hún hefur boðað í fjárveitingu fyrir Landspítalann til viðbótar við fjárlagafrumvarpið?