143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

mótun stefnu í gjaldmiðilsmálum.

7. mál
[18:08]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Herra forseti. Þjóð í höftum er hvorki frjáls né fullvalda þjóð. Meðan við búum í landinu við þau er brýnt að það málefni sé tekið upp í þinginu aftur og aftur, því það er augljóslega eitthvert brýnasta úrlausnarefni okkar. Það er ástæða til að þakka flutningsmanni og félögum hans fyrir að taka málið upp með þessum hætti og flytja þingsályktunartillögu um gjaldmiðilsstefnu. Slík stefna hefur auðvitað mikið verið til umræðu eins og fram kom í máli framsögumannsins. Hér liggja fyrir býsna viðamiklar úttektir á efninu.

Eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson sagði réttilega er í sjálfu sér ekkert sem fyrir liggur annað en að taka afstöðu. Ég er fyrst og fremst hingað kominn til þess að taka af öll tvímæli um það og undirstrika að það höfum við í Samfylkingunni gert. Það er eindregin afstaða okkar að best og farsælast fyrir íslenska þjóð og efnahagslíf landsins sé að taka upp þá mynt sem ríkjandi er á því markaðssvæði sem við Íslendingar höfum valið okkur að starfa á, sem er Evrópa. Það verði best gert með því að ljúka aðildarviðræðum að Evrópusambandinu og fá aðild að ERM II myntsamstarfinu sem að tiltölulega skömmum tíma liðnum mundi færa okkur mikinn ávinning í gjaldmiðilsmálum. Þótt við yrðum enn að búa við krónuna um sinn yrði það miklum mun öflugri og betri króna en við nú búum við, komin inn í evrópska myntsamstarfið og í framhaldinu síðan evruna.

Það er út af fyrir sig rétt að Seðlabankinn nefnir íslensku krónuna sem annan valkost. Við verðum að hafa í huga að bankinn hefur áður sagt eins og hann orðar það svo gætilega að það séu „minni líkur en meiri“ á því að það að hafa íslensku krónuna að gjaldmiðli hafi hjálpað okkur við að hafa í landinu efnahagslegan stöðugleika, þ.e. að krónan hafi ekkert verið að hjálpa okkur við að hafa efnahagslegan stöðugleika í landinu. Það er mergurinn málsins. Á eitt hundrað árum hefur íslenska krónan rýrnað um 100%. — Fyrirgefðu, virðulegur forseti, til að vera nákvæmur þá hefur íslenska krónan á 95 árum rýrnað um 99,95%.

Það er óþarfi að fara út í þá sögu óðaverðbólgu krónunnar sem við öll þekkjum. Sannarlega þekkjum við þær miklu hagsveiflur sem einkennt hafa okkar hagsögu. Sömuleiðis þá gríðarlegu vaxtabyrði sem almenningur hefur þurft að búa við og þarf að búa við.

Það er býsna fróðlegt fyrir nýjar kynslóðir til að mynda að fara á internetinu inn á heimasíður viðskiptabanka í nálægum löndum sem eru t.d. bara í ERM II samstarfinu eins og Danir með dönsku krónuna og stuðning af Evrópska seðlabankanum í því og sjá þau vaxtakjör sem fólki býðst, föst og trygg til áratuga í því stóra verkefni hverrar fjölskyldu að koma sér upp íbúð, þaki yfir höfuðið. Þar er náttúrlega að finna margfalt lægri vexti en hér eru, miklu viðráðanlegri kjör fyrir venjulegt vinnandi fólk til að koma sér upp íbúð, en kannski umfram allt möguleika á því að skipuleggja sig til framtíðar.

Það er lykilþáttur í því að koma hér á stöðugleika, að skapa góðar aðstæður fyrir fjölskyldurnar í landinu, en líka að skapa þær aðstæður sem við þurfum fyrir ný fyrirtæki. Einmitt fyrir þau fyrirtæki sem helst höfða til nýrra kynslóða, fyrirtækja sem byggja á þekkingu, á tækni, á alþjóðaviðskiptum og öðrum slíkum hlutum. Stöðugleiki er forsendan fyrir því að byggja upp slíkt atvinnulíf, að fyrirtæki sem eru að hefja starfsemi geti gert áætlanir til langs tíma og treyst á þær. Því staðreyndin er sú að krónan í sveiflum sínum skolar út nýgræðingnum í íslensku atvinnulífi jafnharðan þegar hún tekur dýfurnar. Fólk sem er að reyna að koma á fót nýjum fyrirtækjum, skapa ný störf, horfist allt í einu í augu við allt aðrar verbólguforsendur, allt aðrar gengisforsendur, allt aðra vexti en lagt var upp með.

Þess vegna er varla hægt að tala um íslensku krónuna sem hinn valkostinn, a.m.k. ekki til langrar framtíðar. Staðreyndin er sú að þó að sannarlega sé ákveðin aðlögun í því falin þegar illa fer að hafa sinn eigin gjaldmiðil er það mjög takmarkað sem íslenskar útflutningsgreinar hafa vaxið við gengissveiflur þegar íslenska krónan hefur veikst. Sagan sýnir okkur að hér verður ekki sama efling útflutningsgreinanna við fall gjaldmiðilsins eins og þekkist í þróaðri iðnríkjum og Þýskaland er hvað þekktasta dæmið um. Hér afmarkast útflutningsiðnaðurinn einfaldlega enn svo mikið af úrvinnslu náttúruauðlinda og ræðst svo miklu meira af því hversu góðar gæftir eru í hafinu í kringum okkur að þetta er okkur tiltölulega lítið hjálpræði. Krónan hefur verið þeim mun duglegri við að koma okkur í erfiðleika.

Oft hafa verið nefndir aðrir möguleikar, einhliða upptaka sem ég tel að sé engin leið að mæla með. Það væri í raun og veru bara ákvörðun um að vera ekki frjálst og fullvalda ríki, þjóð meðal þjóða, heldur bara einhver aflandseyja sem ekki er sjálf aðili að eigin mynt og hefur engin áhrif og getur ekkert sagt til um þróun hennar eða stöðu, svona dollaraeyja eins og þekktar eru í Karíbahafinu og víðs vegar um þriðja heiminn. Það að taka upp einhliða mynt mun aldrei færa okkur sjálfkrafa það vaxtastig sem er í upprunalandi myntarinnar, enda sýnir það sig að lönd sem hafa tekið einhliða upp aðrar myntir búa við miklu hærra vaxtastig á þeirri mynt en upprunalöndin. Það er ekki bandarískir vextir á dollaralánum á aflandseyjum í Karíbahafinu. Það eru allt aðrir og miklu hærri vextir. Þann ávinning að ná lægra vaxtastigi er ekki að finna í því að taka einhliða upp mynt.

Það að taka upp mynt eins ríkis eins og Noregs eða Kanada er síðan auðvitað enn meira afsal á sjálfstæði þjóðar en nokkuð annað í þessum efnum. Þá erum við algerlega undir það seld hvað það eina ríki ákveður í sínum gjaldmiðilsmálum að gera og verðum einfaldlega að lúta því, fyrir nú utan að þegar forsætisráðherra Norðmanna var spurður um álit á þeirri hugmynd er okkur auðvitað býsna minnisstætt svarið — það var hlátur.

Ég held að það sé góð hugmynd hjá Bjartri framtíð að skipuð sé nefnd sem fjalli um þetta efni og taki af skarið því þetta er sannarlega knýjandi úrlausnarefni. Íslenska krónan er svo handónýtur gjaldmiðill að það hefur orðið að setja lög í landinu sem banna fólki að fara með eignir sínar frá Íslandi. Vegna hvers? Vegna þess að það er ekki hægt að leysa eignirnar út úr hagkerfi krónunnar. Svo fullkomið er það öngstræti sem saga íslensku krónunnar er orðin að 1 þús. milljarðar eru taldir vilja fara út úr landinu en fá það ekki.

Ef sú staða okkar í heiminum, það að þurfa að haldleggja fé erlendra manna með lögum vegna þess að gjaldmiðillinn okkar er ekki fær um að leysa út eignir þeirra, að þurfa að takmarka eignarréttindi manna svo mjög að þurfa að brjóta alþjóðasamninga sem við höfum gert um frjálsa verslun og frjáls viðskipti, ef það verður ekki til þess að menn vakni upp af þyrnirósarsvefni sínum og ráðist í það verkefni að koma á í þessu efnahagslífi öðrum og stöðugri grundvelli en (Forseti hringir.) íslenska krónan er, hvað mun þá vekja okkur, virðulegi forseti?