143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

mótun stefnu í gjaldmiðilsmálum.

7. mál
[18:46]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Já, ég sé það að sjálfsögðu fyrir mér, en ég held að við mundum áður þurfa að undirbúa í lögum og með ýmsum hætti miklu, miklu traustara umhverfi um krónuna en við bjuggum við og höfum að einhverju leyti enn þann dag í dag. Ég nefndi bara sem dæmi reglur um að menn geti ekki skuldsett sig og tekið bullandi gjaldeyrisáhættu ef allar þeirra tekjur eru í krónum og svo framvegis og reyndar ýmsar fleiri öryggisreglur. Ég held að við færum út úr höftunum væntanlega í einhverjum skrefum sem þýddu hraðatakmarkanir á t.d. fjárfestingar lífeyrissjóðanna erlendis fyrstu árin á eftir og ýmsar slíkar öryggisreglur. Margar þeirra eru góðar og gagnlegar hvort sem er vegna þess að það á reynslan að hafa kennt okkur. Það tekur til skipulags fjármálakerfisins, það tekur til þess hvernig menn geta fjárfest og gert upp bækurnar og svo framvegis.

Varðandi ESB er það auðvitað þannig að ríkisstjórnin hefur ákveðið hlé í bili á viðræðunum. Þær eru í öndunarvél eða hvað það nú er. Það leiðir mig aftur að því hvernig tillagan er í sjálfu sér sett fram. Ég spyr 1. flutningsmann: Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að móta stefnu, segir í tillögunni, það eru væntanlega rök fyrir því? Ég hefði kannski látið mér detta í hug að menn vildu að þetta væri einhvers konar þverpólitískt, þverfaglegt starf. Að við héldum áfram frá vinnu Seðlabankans, færðum þá vinnu að einhverju leyti yfir á hið pólitíska svið og til yrði einhvers konar pólitísk hvítbók, eitthvað því um líkt, sem leiddi okkur áfram í áttina að því, sem auðvitað er alveg rétt og er undirstaða tillögunnar, að við þurfum á einhverjum stað og tíma að komast að ákvörðunum. Það er alveg rétt.

Ég er líka svolítið hrifinn af því og ég er alveg sammála þeim undirliggjandi tilgangi tillögunnar að neyða menn til að rökstyðja afstöðu sína. Það er mjög gott, meðal annars þá dvaldi ég hér í þinghúsinu og tek þátt í þessari umræðu (Forseti hringir.) því ég vil leggja því lið að menn skiptist á skoðunum og tali saman með rökum um þetta mál.