143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

stuðningur við fjárlagafrumvarpið.

[10:39]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við komumst ekkert frá þeirri staðreynd að forsætisráðherra landsins styður ekki aðhaldsaðgerðir sem eiga að bitna á Landspítalanum, hann er búinn að segja það. Hann er búinn að segja að þingið eigi að endurskoða það. Hann er búinn að segja að þingið eigi að endurskoða legugjöldin, sjúklingaskattana sem á að leggja á.

Það liggur líka fyrir að þingmenn úr flokki hæstv. fjármálaráðherra vilja aukin útgjöld til Landspítalans. Í gær voru nefndar tölur á bilinu 3–5 milljarðar og hæstv. fjármálaráðherra getur ekki komið hingað og reynt að segja okkur að hvítt sé svart, það sé engin aðhaldskrafa á Landspítalann í þessu fjárlagafrumvarpi og að það sé verið að mæta þörf hans. Síðasta ríkisstjórn lagði til uppbyggingaráætlun um tækjakaup á Landspítalanum, lagði til þess fjármagn og það er hæstv. fjármálaráðherra sem er sjálfur að ákveða að setja það allt í uppnám í þessu fjárlagafrumvarpi núna. Þess vegna hlýtur maður að óska skýrari svara um það hvernig hæstv. fjármálaráðherra ætlar þá (Forseti hringir.) að mæta efasemdarmönnum úr eigin þingliði (Forseti hringir.) þegar farnar eru að renna tvær grímur á þingmenn Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) yfir þeirri hörmungarmynd sem hæstv. fjármálaráðherra býður upp á.