143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

stefna ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

[10:45]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það skýrir nú kannski ekki með afgerandi hætti stefnu ráðherrans í loftslagsmálum þegar hann talar um að við þurfum að minnka útblástur og taka á þeim málum þótt okkur greini á um leiðir. Þetta dugar ekki utanríkisráðherra á norðurslóðum sem stefna í loftslagsmálum.

Við erum að tala um þá gríðarlegu náttúruvá sem mannkynið stendur frammi fyrir og það hefur verið sagt oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að við erum að tala um mest aðkallandi og alvarleg verkefni mannkyns á þessari öld, það er svo einfalt. Við erum að tala um svo mikið áhyggjuefni hér fyrir okkur á norðurslóð að við erum líka að tala um súrnun sjávar og þar af leiðandi breytingar á lífríkinu alls staðar í kringum landið.

Enn vil ég þó spyrja hæstv. ráðherra: Eru þær breytingar áhyggjuefni eða getur hæstv. ráðherra talað um það öðruvísi en tala um opnun siglingaleiða?