143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

lagaumhverfi náttúruverndar.

[15:43]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda, Katrínu Jakobsdóttur, fyrir það tækifæri sem gefst til að ræða um náttúruverndarlögin. Á næstu dögum mun frumvarp verða lagt fyrir þingið um að fella náttúruverndarlögin, sem áttu að taka gildi 1. apríl 2014, úr gildi. Þingið mun því síðan taka afstöðu til frumvarpsins og verði það samþykkt verður engin breyting á, þ.e. að núgildandi náttúruverndarlög halda áfram gildi sínu, sömu lög og eru í dag. Í framhaldinu mun ráðuneytið hefja vinnu við endurskoðun á náttúruverndarlögunum og ég mun koma aðeins inn á það á eftir með hvaða hætti.

Margir hnútar voru á þessu máli síðastliðið vor eða síðastliðinn vetur sem greiða þurfti úr. Á endanum fannst lausn sem enginn var almennilega sáttur við. Það sem fólst í lausninni var að gildistökunni var frestað um um það bil eitt ár, sem gefur okkur núna ráðrúm til að gera þær breytingar sem gera þarf. Stefnt er að því að leggja fram nýtt og endurbætt frumvarp um náttúruverndarlög vorið 2015, óháð því að það standi ekki á þingmálaskránni þá stendur það til og ég hef mikla trú á að það takist.

Varðandi náttúruverndaráætlunina þá er nauðsynlegt að leggja hana fram. Ef það fer þannig að þingið samþykki að fella lögin úr gildi þá rennur núgildandi náttúruverndaráætlun út í lok þessa árs. Verði engin breyting á, og núgildandi lög halda áfram gildi sínu, þarf í framhaldinu að leggja fram endurnýjaða náttúruverndaráætlun á grundvelli 65. gr. laga um náttúruvernd. Núgildandi náttúruverndaráætlun er enn í gildi, hins vegar hefur ekki náðst að klára mjög mörg verkefni sem liggja fyrir í henni. Þess vegna er það eðlilegt framhald að halda áfram með núgildandi náttúruverndaráætlun og framlengja hana þar til ný og endurskoðuð náttúruverndarlög taka gildi.

Samkvæmt laganna hljóðan er tillaga að náttúruverndaráætlun unnin á grundvelli VIII. kafla laga nr. 44/1999 og í samstarfi við Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun, náttúrustofur og aðra hagsmunaaðila, þar með talin sveitarfélögin, og ekki síst, þannig að ég vil bara ítreka það samráð.

Síðan er þá spurning hv. þingmanns um hvernig undirbúningi verður háttað. Það er mjög mikilvægt að náttúruverndarlög séu lögð fram í víðtækri sátt, þau stuðli að náttúruvernd og séu í almannaþágu. Sú vinna sem búið er að gera er góð að mörgu leyti og ég sé fyrir mér að hægt sé að byggja á þeim grunni, nota það sem er gott og bæta annað. Gagnrýninni sem hefur komið fram, að ekki hefði verið haft nægilegt samráð við fjölmarga aðila og sérfræðinga við undirbúning frumvarpsins, hyggst ég bæta úr. Fara þarf vel yfir athugasemdir sem bárust og ekki var tekið tillit til við gerð frumvarpsins. Eðlilega voru margir hnútar á málinu sem þurfti að greiða úr. Frumvarpið fékk afar knappan tíma eins og ég sagði og á endanum fannst sú lausn að fresta gildistökunni.

Rík áhersla þarf að vera á náttúruvernd og markmiðsgreinar laganna og mikilvægi náttúruverndarlaga til að ná þessum markmiðum. Það er hins vegar nauðsynlegt að um þann lagaramma sem lagður er til grundvallar ríki almenn sátt og meðalhófs sé gætt og þau hafi víðtæka skírskotun í samfélag hvers tíma. Í ljósi þess er mikilvægt að fleiri komi að breytingum á náttúruverndarlögum, þau séu skýr og taki til ólíkra sjónarmiða til að tryggja farsæla lausn.

Í undirbúningi er innan ráðuneytisins að mynda hóp með sérfræðingum og fagaðilum til að fara yfir náttúruverndarlögin, nr. 60/2013. Markmiðið verður að ná sem víðtækastri sátt um það sem þar stendur, ná lausnamiðaðri sátt sem yrði til jákvæðra breytinga fyrir okkur öll sem unnum okkar fallega landi, sem og hinna fjölmörgu ferðamanna sem koma til landsins. Lögð er áhersla á að horfa á málið út frá lausnum, hugsa fram á við og setja sér eftirsóknarverð markmið. Í þeirri vinnu verði tekið tillit til þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram að ekki hafi nægilegt samráð verið haft við fjölmarga aðila. Fara þarf í vinnu með ýmis sjónarmið, t.d. skógræktarinnar, sveitarfélaganna, ferðafrelsis eða félagasamtaka, Landssambands landeigenda, svo að nokkur séu nefnd.

Helstu ágreiningsefni sneru einmitt að ákvæðum um almannarétt, umferð um hálendið og óskýrar orðaskilgreiningar. Heildstæðari sýn þarf að vera á umhverfismál í lagaumhverfinu. Einnig snerist gagnrýnin um ákvæði um framandi tegundir, heimild til að tjalda, hlutverk einstakra stofnana við framkvæmd laganna — ég tel einmitt að það hafi ekki verið skýr verkaskipting heldur nokkuð óskýr og líka verkaskipting ríkis og sveitarfélaga. Þá þarf að stíga viðráðanleg skref hvað kostnað varðar. Má þar nefna landmælingar. Ætlunin er hér að gera grein fyrir nokkrum athugasemdum og mun ég kannski byrja á þeim en ég næ ekki að fara í það ítarlega.

Eitt var eignarréttur og almannaréttur og vernd eignarréttar. Umráðaréttur landeigenda yfir landi sínu er auðvitað mikilvægur grundvallarréttur sem ber að vernda en með sama hætti er nauðsynlegt að tryggja eðlilegan rétt almennings og ferðafólks til að njóta náttúru landsins svo fremi að ekki sé gengið á rétt og hagsmuni landeigenda með spjöllum, ónæði eða öðru slíku. Það er augljóst að hér er um að ræða vaxandi vandamál víða um landið samhliða mikilli fjölgun ferðamanna.

Ýmis önnur mál, eins og umferð hjólreiðamanna, akstur utan vega, kortagrunnur og eins og ég nefndi áður óskýrari orðaskilgreiningar, er meðal þeirra þátta sem (Forseti hringir.) þarf að taka á og ég hefði bara gaman af að taka til umræðu (Forseti hringir.) og mun gera við hv. umhverfis- og samgöngunefnd.