143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

húsnæði St. Jósefsspítala.

87. mál
[16:35]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að spyrjast fyrir um þetta og taka málið upp. Ég held að þetta sé mál sem menn ættu að skoða og skoða sögu þess. St. Jósefsspítali á sér merka sögu og hefur oft skipt um hlutverk. Ég hef oft hugsað til þess þegar maður sér fjölmiðlamenn spila viðtal við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, hvað eftir annað, af hverju í ósköpunum voru aldrei spiluð viðtöl og yfirlýsingar ýmissa hv. fyrrverandi stjórnarliða um St. Jósefsspítala. Ég hvet menn til þess að kynna sér hvaða áætlanir voru uppi þegar tækifæri var til að breyta starfseminni. Það var tækifæri til staðar sem hefði nýst Hafnfirðingum mjög vel og þessari gömlu stofnun hefði verið sýndur mjög mikill sómi. Sú leið var því miður ekki farin. Við sitjum núna uppi með þetta glæsilega hús sem hefur átt betri tíð og það er ekki komin nein lausn á málinu.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Ég get ekki rætt málið meira á þessari mínútu en hefði haft gaman af því.