143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[14:49]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir svörin og mundi gjarnan vilja fara ítarlegar yfir þessa hluti, t.d. á fundi nefndarinnar þegar málið kemur fyrir hana. Ég geri ráð fyrir því að ráðuneytið ásamt ráðherra geti upplýst okkur frekar um það sem hefur ekki tekist að svara.

Ég geri mér grein fyrir því að ég kom með margar spurningar og er tilbúin til að fara í gegnum þær aftur á öðrum vettvangi. Mér finnst þó að við þurfum að fá svar við því, og mér finnst það dálítið grundvallaratriði, af hverju kínversk yfirvöld eru í raun og veru að kljúfa EFTA í sundur á þennan hátt. Það hljóta að liggja einhverjir hagsmunir þar að baki og við þurfum að komast að því hverjir þeir eru. Það er mjög mikilvægt, líka til að bæta samningsstöðu okkar, geri ég ráð fyrir.

Mig langar til að eitt komi mjög skýrt fram út af því að bæði núverandi og fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherrar hafa ýjað að því að ég telji að það sé ekki greinarmunur á því að vera í stjórnmálalegu sambandi við ríki og viðskiptalegu. Það er alveg hægt að eiga fundi með ráðherrum ríkja þótt maður sé ekki í viðskiptasamningum við þau. Við erum með stjórnmálalegt samband. Það er eitt að hafa einangrunarstefnu og annað er hvernig samninga á viðskiptalegum grundvelli við gerum við þessar þjóðir og hvað það er sem við leggjum áherslu á. Það er greinilegt að kínversk yfirvöld leggja mjög mikla áherslu á að fá afgerandi hlutverk á Íslandi. Við þurfum að vita nákvæmlega hvaða hlutverk það er. Er ráðherra meðvitaður um hvað það er sem kínversk yfirvöld ætla sér á Íslandi?