143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn.

76. mál
[16:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það sem helst nú varast vann varð þó að koma yfir hann. Hv. þingmaður hefur lýst því hér fjálgum orðum hvernig hann stóð í baráttu og bardaga gegn því að innleiða innstæðutryggingatilskipunina. Það hafði engin áhrif. Hann kom að vísu í veg fyrir að fyrri ríkisstjórn hefði — eins og hann orðaði það — troðið henni í gegn, en það breytir engu um það að nú er það hann sjálfur, atkvæði hans flokksmanna, sem munu troða henni í gegn. Það er hæstv. fjármálaráðherra, leiðtogi lífs hans, sem hefur kynnt þinginu þá fyrirætlan sína að leggja innleiðingu í formi lagabreytinga fyrir Alþingi Íslendinga í vetur. Hvert verður þá hlutskipti hv. þingmanns? Ég skal upplýsa þingheim um það. Hann fer annaðhvort á klósettið eða verður fjarverandi, hann mun að sjálfsögðu ekki taka þátt í því. Það breytir engu um að það verður hans flokkur sem kemur því hér í gegn.

Ég kom þó aðallega hingað upp, frú forseti, til að eiga orðastað við hv. þm. Óla Björn Kárason, sem leggur að minnsta kosti fram hugmyndafræði um það hvernig hann vill sjá framtíð Íslands. Ég er ekki að öllu leyti sammála henni en mér finnst alltaf virðingarvert þegar menn koma og færa rök fyrir máli sínu. Hv. þingmaður hefur fært rök fyrir því að EES-samningurinn sé miklu altækari orðinn í íslensku samfélagi en menn áformuðu þegar þeir hófu þessa vegferð. Það er rétt hjá honum. Hann hefur náð til miklu víðari sviða en menn töldu.

Þetta var skoðað rækilega í Noregi á sínum tíma, reyndar fyrir tveimur árum. Upp úr því var gerð skýrsla sem Ulf Sverdrup ritstýrði og einn þekktasti stjórnskipunarfræðingur Norðmanna, Fredrik Sejersted, samdi eiginlega. Hann kom hingað til lands og kynnti hana, 880 bls. Menn komust að þeirri niðurstöðu að EES-samningurinn gegnsýrði norskt samfélag og í miklu ríkari mæli en menn höfðu átt von á. Fræg urðu ummæli Sejersteds þegar hann sagði að samningurinn hefði ekki bara áhrif á líf fólks heldur líka hunda og hænsna, og það er alveg rétt. Það breytir því ekki að við höfum, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson bendir réttilega á, hagnast gríðarlega á þessum samningi, en við höfum líka lent í ógöngum beinlínis út af gölluðum tilskipunum eins og fram hefur komið fyrir dómi.

Það breytir því ekki að möguleikarnir sem við höfum eru þeir fjórir sem ég nefndi hér í fyrri ræðu minni. Mér finnst sjálfsagt að hv. þm. Óli Björn Kárason og skoðanasystkin hans beiti sér fyrir því að EES-samningurinn verði endurskoðaður. Ég geri mér engar vonir um að það leiði til nokkurrar sérstakrar niðurstöðu sem skipti máli og vísa til þess að það hefur áður verið reynt. Þessir tveir flokkar sem nú eru í ríkisstjórn hafa áður reynt að ná fram endurskoðun á EES-samningnum og komið slyppir og snauðir heim. Þannig var það. Það var einn af leiðtogum fortíðarlífs þingmanna eins og hv. þm. Frosta Sigurjónssonar sem freistaði þess, Halldór Ásgrímsson, sem þá var utanríkisráðherra. Ég gef mér því að sá möguleiki sé ekki inni í dæminu, en sjálfsagt er að láta á það reyna en það eyðir miklum tíma.

Ég er sömuleiðis þeirrar skoðunar að tvíhliða samningur sé ekki æskilegur fyrir okkur, það sé allt of stirt og erfitt form. Þar fyrir utan hef ég einfaldlega bæði lesið það í textum frá framkvæmdastjórninni og hlustað á forustumenn Evrópusambandsins segja að þeir vilji losa sig við slíka samningagerð. Þeir munu ekki fara þá leið að gera mikið af slíkum samningum til viðbótar við Sviss, þetta er yfirlýst stefna þeirra.

Fyrir mér eru því tveir möguleikar. Það er annaðhvort að ganga í Evrópusambandið — og þá blasir við það sem er helsti agnúinn, að því er mér virðist á mönnum sem eru andsnúnir því, þ.e. að við höfum engin áhrif, og kannski hef ég tíma til að koma að því — eða að halda áfram með EES-samninginn að breyttri stjórnarskrá. Hægt er að breyta stjórnarskránni þannig að hún heimili takmarkað framsal sem mundi duga flestum af þeim gerðum sem ég hef sagt að séu við það að fella okkur út af gráa svæðinu.

Þá komum við að hinu, að fram eru að koma mjög stórar breytingar sem ég styð, eins og t.d. fjármálaeftirlitskerfin sem ég tel að séu æskileg en ég veit að margir þingmenn eru annarrar skoðunar. Þá er spurningin: Hvað gerist ef Ísland getur ekki tekið það upp? Jú, það mun til dæmis valda því að eins og sakir standa munu hin EES/EFTA-ríkin ekki geta tekið það upp, þannig að það verða vandræði fyrir Norðmenn líka, fyrir Liechtenstein. Það er eitt.

Að því er okkur varðar þá hefur aldrei reynt á það hvað gerist ef Ísland tekur ekki upp einhverja meiri háttar löggjöf. Ég skil sannarlega efasemdirnar þar að baki vegna þess að það þýðir í reynd að við værum — og ég fellst á það að stjórnarskráin heimilar það alls ekki — að fella okkur undir vald stofnana innan ESB sem hafa orðið til eftir að við gerðum samninginn um EES og við eigum ekki aðild að. Herra trúr, sannarlega skil ég að mjög erfitt er að hugsa slíkt út frá stjórnarskránni eins og hún er núna.

Ég tel að sú breyting yrði Íslandi til farsældar en það er ekki undir í þessari umræðu. Þá eru það þessir tveir möguleikar; að ganga í Evrópusambandið eða að breyta stjórnarskránni þannig að við getum leyft okkur innleiðingu ýmissa gerða sem í dag skarast með minni háttar hætti á við stjórnarskrána. Það breytir ekki hinu að fram undan eru stór og viðamikil mál sem kalla á töluvert valdaframsal. Það er grundvallarumræða sem menn þurfa að taka.

Af því að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson er farinn úr salnum og sagði að það væri ekkert í EES sem stjórnarskráin rúmar ekki þá vill svo til að fram undan (Gripið fram í.)— þá bið ég hv. þingmann afsökunar, mér skildist að hann hefði verið að segja það. En það er þannig að utanríkismálanefnd er að fara í mikla fundalotu einmitt um fimm álitaefni og þar af eitt verulegt hvað stjórnarskrána varðar. Þetta eru möguleikarnir eins og ég sé þá.

Þegar hv. þingmaður — sem er líka partur af ágætri hugmyndafræði og heildstæðri hjá hv. þm. Óla Birni Kárasyni — hvetur til þess að við reynum að draga fram og raungera aðra möguleika þá staldra ég við. Möguleikarnir sem hann dregur upp? Það er eins konar fríverslunarbandalag ríkja í norðrinu, Íslands, Bandaríkjanna, Kanada og Rússlands og kannski einhverra annarra líka, en þetta voru þau sem hann nefndi. Ég skildi það svo að það væri valkostur gagnvart EES, ég skildi það þannig. Og þá er það þannig að við eigum í viðskiptasambandi við Evrópu sem er á þann veg að þar er markaður fyrir 66–75% af útflutningsvörum okkar.

Hvernig er viðskiptum okkar við Kanada háttað? Ég held að það sé rétt undir einu prósenti af útflutningsversluninni sem fer til Kanada, en hv. þm. Frosti Sigurjónsson þekkir það örugglega betur en ég, búinn að stúdera Kanada miklu meira og þann ágæta dollara sem því fína landi fylgir. Að því er Bandaríkin varðar þá hafa viðskipti okkar og Bandaríkjanna verið að minnka ár frá ári, eru komin undir 10%. Rússland? Þetta er ekki hugmynd sem ég treysti mér til að kokgleypa hér í dag og sennilega aldrei. Ég held að ef við stillum upp hagsmununum sem Ísland hefur annars vegar af því að vera aðili og frumkvæðisþjóð að slíku bandalagi og hins vegar af því að vera í EES eða ganga í Evrópusambandið og halda áfram þeim góðu viðskiptum sem við höfum við Evrópu, með þeim kjörum sem við höfum í dag, þá er það bara ekki val, ég verð einfaldlega að segja það.

Hins vegar er hugmyndin auðvitað einnar messu virði eins og allar hugmyndir og menn eiga alltaf að vera að kasta upp hugmyndum og leita nýrra leiða. Það er jákvætt framlag hjá hv. þingmanni. Svona lít ég nú á þetta.

Að því er varðar áhrif okkar innan ESB — hv. þm. Frosti Sigurjónsson hvíslaði eða kallaði hér áðan að við hefðum kannski 3–3,25% atkvæða innan ESB. Einn þingmaður sagði hér í dag: Við höfum þrjá til fimm þingmenn á öllu þinginu. Áhrifin snúast ekki út frá því. Áhrif okkar á slíkri samkomu eru: Með hverjum getum við myndað bandalag og tengsl? Þau eru þegar til staðar. Við höfum alltaf tekið okkur stöðu með smáþjóðum og svo vill til að hagsmunir þeirra liggja oft saman.

Af hverju er Ísland alltaf að boxa í utanríkismálum langt fyrir ofan sinn þyngdarflokk? Það er út af Norðurlöndunum, vegna þess að við höfum alltaf verið í samfloti með Norðurlöndunum, það eru þjóðir sem við eigum svo margt sameiginlegt með. Þessar þjóðir styðja hver aðra og það er það sem gefur okkur vægi. Við eigum sérstaka vini þarna innan dyra sem eru Eystrasaltsþjóðirnar. Það er mín reynsla, og ekki bara mín reynsla heldur liggja akademískar rannsóknir að baki því, að smáþjóðir vinna með þeim hætti saman að þær eiga stundum auðveldara með að koma sínum málum vel fyrir borð en stærri þjóðirnar. Ég óttast það því ekki. Og menn mega ekki vera með minnimáttarkennd bara af því að þeir tilheyra þjóð sem er bara 330 þús. manns.