143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn.

76. mál
[16:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að sleppa hv. þingmanni við innstæðutryggingaumræðuna, ætla ekkert að fara í það hversu mikið Norðurlöndin styðja okkur, við þurfum á því að halda — af því að menn nefndu hér Icesave, en látum það liggja milli hluta. Mér fannst þetta vera orðin svolítil nauðvörn hjá hv. þingmanni þegar hann vísar til þess að ég þurfi að fara á klósettið á næstu árum. Það er alveg rétt, það þarf ekkert að koma því að í þingtíðindum, það er bara eitthvað sem segir sig sjálft.

Ég vil bara spyrja hv. þingmann. Þetta er ekki bara mitt mál, þetta er líka mál hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Telur þingmaðurinn að það gangi upp að koma hér með innstæðutryggingakerfi — við erum með þrjá banka sem eru með 96% af öllum innstæðum, þar sem innstæðurnar eru tryggðar, ríkistryggðar, upp á 100 þús. evrur?

Virðulegi forseti. Ég vil bara fá að vita það. Hefur hv. þingmaður, vegna þess að þetta er mál okkar beggja núna — við getum deilt um það hvort hæstv. ríkisstjórn hefði átt að gera meira í þessu, hvort hægt væri að gera eitthvað í þessu, ég er alveg til í að taka þá umræðu, við skulum ekki taka hana núna. Ég vil bara fá að vita það frá hv. þingmanni: Telur hann það ásættanlega áhættu fyrir íslenska skattgreiðendur — það gæti reynt á þetta — að við tryggjum með ríkisábyrgð hverja einustu innstæðu, af þessum 1.500 milljörðum íslenskra kr. í íslenska bankakerfinu, upp á 100 þús. evrur?