143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 94/2013 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

77. mál
[16:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2013, um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn um hugverkaréttindi, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2011/77/ESB, frá 27. september 2011, um breytingu á tilskipun 2006/116/EB um verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda.

Með tilskipuninni er stefnt að því að bæta réttarstöðu listflytjenda með því að lengja verndartíma listflutnings og hljóðrita. Þá er leitast við að tryggja að listflytjendur njóti ávinningsins af lengingu verndartímans. Einnig er stefnt að því að tryggja samræmingu verndartíma höfundaréttar þegar um er að ræða frumsamdar tónsmíðar með frumsömdum texta á þann hátt að umrædd tilskipun nái til allra þeirra verka. Breyta þarf höfundalögum, nr. 73/1972, til að innleiða tilskipunina. Stefnt er að því að mennta- og menningarmálaráðherra leggi fram lagafrumvarp til breytinga á höfundalögum til samræmis við efni tilskipunarinnar á yfirstandandi þingi.

Ekki er gert ráð fyrir því að lagabreytingarnar muni hafa aukinn kostnað í för með sér eða stjórnsýslulegar afleiðingar hér á landi.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.