143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 94/2013 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

77. mál
[16:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú er vel hugsanlegt að á skagfirska efnahagssvæðinu njóti menn listflutnings aðeins af vínylplötum og seinni tíma þróun eins og geisladiskar og síðan hljóðrit um vefinn hafi farið fram hjá íbúum þar. Ef svo er þá er þessi þingsályktunartillaga sniðin fyrir þá.

Ég tek eftir því þegar ég les á bls. 2 þar sem greint er frá hinni auknu vernd, sem í sjálfu sér er mjög merkilegt mál, að alltaf er talað um hljómplötuframleiðendur og það á að leiðrétta vernd þeirra sem hafa flutt verk sem eru birt á hljómplötum. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það sé einfaldlega þannig sem verndin eigi að lengjast? Er ekki verið að gera ráð fyrir, eins og segir í 3. gr. breytingartillagnanna við tilskipun Evrópuráðsins, stafrænum markaði? Það er alveg klárt, er það ekki, að það sem hæstv. ráðherra er að leggja til varðar meira en bara hljómplötur?

Ég átti einu sinni gríðarlegt safn hljómplatna. Því miður eru þær allar glataðar, væru sennilega verðmætar og gaman að eiga þær í dag. Ég nýt í dag, og ég hygg flestir, hljómlistar með öðrum hætti. Ég skildi það svo þegar ég las sjálfa tilskipunina og breytingartillögurnar að það væri átt við stafrænan markað. En tillagan er um allt annað.