143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

dómstólar.

93. mál
[15:56]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað rétt hjá hæstv. innanríkisráðherra að það er óheppilegt að breyta lögunum á hverju ári til að fjöldinn sé nægilegur til að sinna þessum verkefnum. Staðan er þó sú að þó að málum hafi ekki fjölgað eru þau annars eðlis. Mörg þeirra eru þess eðlis að það þurfa að vera þrír dómarar í hverju þeirra. Um leið og þrír héraðsdómarar eru fastir í einstökum málum eykst álagið á aðra. Þetta er ákveðin skýring fyrir utan þá skýringu að málin eru umfangsmikil, það er mikið af gögnum, þau eru flókin og kalla þar af leiðandi á meiri vinnu en ella. Þetta er skýringin.

Við verðum samt að fara að huga meira að framtíðarskipaninni, hvernig hver dómari nýtist best. Hann er dýrasti vinnukraftur dómstólsins. Er verið að nota hann líka í verkefni sem er óþarfi? Ég hef tilfinningu fyrir að svo sé og þykist vita að sé. Við þurfum að nýta þessa starfskrafta best og getum þar af leiðandi kannski sloppið við mikil útgjöld til framtíðar. Dómstólarnir hafa alltaf verið reknir mjög knappt, ég held að ég megi fullyrða að um það bil 98% séu einfaldlega launakostnaður sem er meira en almennt gerist í stofnunum. Hið sama á við um ákæruvaldið, það er enginn aukapeningur til að bruðla með hjá dómstólunum. Það get ég alveg fullyrt, það þekki ég.