143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[16:35]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég tel að þetta frumvarp sé klárlega skref í rétta átt. Ég ætlaði að spyrja út í fjármagn, það fjármagn sem sparast þegar þetta embætti er lagt niður eða sameinað Neytendastofu en hæstv. ráðherra hefur svo sem svarað því. Í starfshópi sem skilaði skýrslu um skipulag neytendamála var reyndar lagt til að embætti talsmanns neytenda yrði lagt niður og fjármagni sem sparaðist yrði skipt á milli neytendaréttarsviðs Neytendastofu og Neytendasamtakanna og þá eyrnamerkt kvörtunarþjónustu Neytendasamtakanna. Ég skil það þá þannig að engir peningar færist til þessara stofnana sem mér finnst aðeins miður. Mér finnst að við eigum að horfa meira til þriðja geirans og félagasamtaka og nýta þann kraft sem þar er, við fáum oft mikið fyrir peningana.

Aðeins af því að komið var inn á það áðan að talsmaður neytenda hefði tekið á móti kvörtunum og hvað yrði þá um það. Þetta er eitt af því sem sýnir hvað það var allt of flókið að hafa Neytendastofu, talsmann neytenda og svo frjáls félagasamtök sem eru Neytendasamtökin. Nú er það þannig að Neytendasamtökin eru með þjónustusamning við ríkið og fá 8,4 milljónir á ári til þess einmitt að taka við kvörtunum frá neytendum. Það er því mjög einkennilegt ef talsmaður neytenda hefur á sama tíma verið að taka við kvörtunum frá neytendum og Neytendastofa á heldur ekki að vera að því, ekki nema það séu þá kvartanir sem snúa að þeim þáttum sem Neytendastofa er með eftirlit með.

Mig langar líka til að leggja til við hæstv. ráðherra að taka tillit til skýrslunnar sem kom út 2008, sem er einmitt fjallað um í frumvarpinu, sem er ný sókn í neytendamálum. Þar er ágætiskafli, sérstaklega lagakaflinn, þar sem verið er að tala um að afmarka hlutverk Neytendastofu. Til dæmis er bent á að fyrirtæki sækja þangað og fá skorið úr um firmaheiti og lén og annað þess háttar og má alveg velta því fyrir sér hvort það eigi heima þar undir. Þannig að ég hef ekki séð að þær tillögur sem þar eru unnar — að eitthvert tillit hafi verið tekið til þeirra. Það er svona með þessar skýrslur, þær eru oft skrifaðar og svo er lítið gert með þær.

Mig langar líka að spyrja: Talað er um að sérstaklega hafi verið mælt fyrir um það í lögum að Neytendastofa skuli stuðla að fræðslu til almennings um neytendamál, þ.e. neytendafræðslu. Ég velti þessu fyrir mér, hef örlitlar efasemdir um þetta, það þarf þá alla vega að eyrnamerkja einhverja peninga í þetta. Ég spyr líka: Í hverju á þessi fræðsla að felast, með hvaða hætti á þetta að fara fram? Nú er það þannig að neytendafræðsla, alla vega á Norðurlöndunum þar sem ég þekki til, fer mjög mikið fram í gegnum fjölmiðla. Fjölmiðlar eru mjög duglegir, þeir hafa líka tekið sig á hér á Íslandi. Og líka skólarnir, neytendafræðsla á að vera bæði inni í grunnskólum og framhaldsskólum. Síðan erum við með ótal stofnanir og samtök sem að einhverju leyti sinna neytendafræðslu. Það má bara nefna Matvælastofnun, upplýsingar þar, Neytendasamtök og fullt af öðrum samtökum og stofnunum. Ég er því bara að velta fyrir mér hvort þetta verði til að dreifa kröftunum því að ég veit að Neytendastofa hefur í nógu að snúast. Ég bið um svar frá hæstv. ráðherra um neytendafræðsluna, hvað menn eru að hugsa þar.