143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

myglusveppur og tjón af völdum hans.

96. mál
[17:46]
Horfa

Flm. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég þakka þeim þingmönnum sem tekið hafa til máls fyrir góðar undirtektir og mjög málefnalegt innlegg í umræðuna. Ég veit að fleiri þingmenn hefðu viljað taka þátt í umræðum en eru fjarverandi vegna annarra þingstarfa.

Ég ætla ekki að fara yfir það sem hér hefur verið sagt en þó þakka enn og aftur þeim þingmönnum sem tekið hafa til máls. Ég nefni sem dæmi það sem Óttarr Proppé lagði hér inn um hinn norska sjóð, opinberan sjóð, sem tekur þátt í atvikum af þessu tagi. Þar eru þeir komnir miklu lengra en við.

Hér hefur verið fjallað um málið og á þessum lokamínútum vil ég ekki teygja umræðuna á langinn. Mér liggur á og ég tel mjög gott að málið gangi sem fyrst til nefndar þannig að við gætum átt möguleika á að klára það fyrir jól. Mér heyrist allir tala um að viljinn sé þverpólitískur og að þingmannamál verði samþykkt.

Hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir las hér upp úr bréfi sem Bylgja Hafþórsdóttir skrifaði í Morgunblaðið fyrir nokkru þar sem hún fjallaði um sína hlið á þessu máli. Ég greip niður í ummæli hennar þar sem hún sagði að húsið hennar hefði verið jafn ónýtt og ef það hefði brunnið til grunna. Það tjón ætti hún að höndla ein, en brunatjón hefði verið bætt.

Hún segir frá því að hún hafi árangurslaust skrifað tveimur hæstv. ráðherrum bréf sem einhverra hluta vegna var ekki svarað. Þá hafi hún neyðst til að birta bréfið á opinberum vettvangi í þeirri veiku von að geta þannig vakið athygli á hættulegum vágesti sem dúkkað getur upp á heimilum fólks í landinu. Ég ætla að lesa upp úr þessu bréfi og einu eða tveimur bréfum til viðbótar. Mér finnst ekki þurfa meira til en lýsingu þessa fólks til að Alþingi samþykki umrædda tillögu og framkvæmdarvaldið setji þetta í gang.

Í greininni segir, með leyfi forseta:

„Þessi gestur er ósýnilegur en skaðinn sem hann getur valdið á heilsu fólks og eignum getur verið óbætanlegur. Þessi skaðlegi gestur er myglusveppur og hann knúði dyra hjá mér og nú er búið að jafna heimili mitt við jörðu.“ — Hugsið ykkur lýsinguna, virðulegi forseti.

„Róttækar ráðstafanir finnst ykkur kannski en undir húsinu var skriðkjallari og þar átti sveppurinn upptök sín. Við eftirgrennslan kom í ljós að kjallarinn sá var ekki gerður eins og teikningar sögðu til um þegar húsið var byggt.“ — Ég vek athygli á þessu.

Áfram segir:

„Dýr sparnaður það en þar sem húsið er 20 ára gamalt eru allar kröfur sem ég mögulega gæti gert á húsbyggjandann löngu fyrndar þrátt fyrir að ég hafi einungis átt húsið í um sjö ár. Af þessum sjö árum var ég búin að vera veik í tvö án þess að allur sá fjöldi lækna sem ég leitaði til fyndi hvað væri að mér. Myglusveppurinn kostaði mig starfið, starf þar sem ég fékk möguleika á að mennta mig frekar við góðan skóla og hann kostaði mig líka námið. Átti eina önn eftir við Viðskiptaháskólann á Bifröst þar sem ég náði toppeinkunnum og átti alla möguleika á að koma mér vel áfram hjá fyrirtækinu sem ég starfaði fyrir. Ég bara gat ekki réttlætt fyrir mér lengur að bjóða vinnuveitendum mínum upp á starfskraft sem var sífellt fjarverandi vegna veikinda og sá mig því knúna til að segja upp. Eftir að myglusveppurinn uppgötvaðist flutti ég út, í herbergi hjá bróður mínum ásamt yngstu dótturinni og fljótlega fór heilsan að lagast. Ég var það heppin að sveppurinn virðist ekki hafa haft langvarandi áhrif, þó ef til vill sé of skammur tími liðinn til að hægt sé að segja til um áhrif hans á ónæmiskerfið.“

Ég vil geta þess að að því er mig minnir birtist þetta í blaðinu 2008. Og áfram segir:

„Nú var um tvennt að velja, reyna að komast í veg fyrir myglusveppinn með öllum tiltækum ráðum, rífa allt innan úr húsinu, gólfið úr og reyna á einhvern hátt að steypa plötu, en hvernig átti ég að réttlæta fyrir mér að leggja út í milljóna kostnað sem svo yrði ekki til neins þar sem sveppurinn var alveg eins í útveggjum hússins.“

Síðan rekur hún málin eins og hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir las hér upp. Ég ætla aðeins að grípa niður í eitt atriði þar sem bréfritari segir, með leyfi forseta:

„Hvernig á að vera mögulegt að byrja upp á nýtt með lánið af ónýta húsinu á bakinu?“

Þetta eru orð sem við skulum hafa í huga. Í framhaldi af því fjallar hún um það hvernig komast eigi í gegnum greiðslumat með gamla lánið af húsinu á bakinu.

Ég hef lesturinn á ný upp úr þessari blaðagrein, með leyfi forseta:

„Á öllum húseignum er skyldutrygging til að tryggja hagsmuni fólks ef kviknar í. Húsið mitt er jafn ónýtt og ef það hefði brunnið til grunna en það tjón á ég bara að höndla ein. Hvernig, getið þið sagt mér það? Held ég verði að þiggja þessa áfallahjálp sem tryggingafélagið mitt býður upp á.“

Virðulegi forseti. Þetta eru nokkur orð sem féllu um málið. Ég gríp líka niður í annað bréf sem Bylgja Hafþórsdóttir, þegn þessa lands, hefur birt á bloggsíðu þar sem hún fjallaði um þetta sama mál og baráttu sína.

Í niðurlagi þess bréfs segir, með leyfi forseta:

„Fórum fyrst í tryggingarnar — nei, ekki einu sinni innbúið. Viðlagasjóður — nei, ekki náttúruhamfarir. Bjargráðasjóður — nei, hættir öllu slíku. Og samkvæmt áliti lögfræðingsins okkar: Fasteignasalinn — nei. Sveitarfélagið (byggingarfulltrúi) — nei. Húsbyggjandi — nei. Seljandinn — ef til vill, en hélt það yrði vonlaust. Ef einhver getur bent okkur á einhverja leið sem okkur hefur yfirsést þá látið mig vita.“

Virðulegi forseti. Margt mætti segja um myndir þar sem stærðarinnar skurðgrafa er að mölva niður húsið, það er hreint út sagt átakanlegt að horfa á það. En mér hafa borist fleiri lýsingar, virðulegi forseti, t.d. á íbúð sem byggð var 1995 og viðkomandi aðili eignaðist fyrir tveimur árum. Þar segir:

„Það kom nýlega í ljós myglusveppur í öllu þakinu hjá okkur“ — og takið eftir, þetta er nýbyggt hús — „og það þurfti að flytja strax út. Mikil veikindi hafa verið í fjölskyldunni og það þurfti að henda nánast öllu innbúi og fatnaði. Núna stendur þessi sjö manna fjölskylda með ekkert í höndunum eftir þetta og margar, margar milljónir í mínus. Við erum uppgefin og ráðalaus, tryggingarnar taka engan þátt í neinu, ekki einu sinni innbúinu.“

Virðulegi forseti. Það sem kannski var átakanlegast við að búa til þessa greinargerð, í því sem komið hefur eftir það, er bréf sem ég fékk frá tólf ára stúlku. Það er allt í lagi að lesa það, ég hef fengið leyfi til þess. Viðkomandi stúlka kom fram í fréttum sjónvarps ekki alls fyrir löngu og sagði sögu sína. Ég held að það sé ágætt að ég ljúki máli mínu í umræðu um þessa þingsályktunartillögu á því að lesa það — og ég vil enn og aftur þakka fyrir góðar viðtökur.

Ég vil líka nota tækifærið og þakka hv. fyrrverandi þingmanni, Jónínu Rós Guðmundsdóttur, sem var 1. flutningsmaður þessa máls á síðasta þingi. Málið komst því miður ekki á dagskrá. Ég tók það í arf frá henni og hef flutt það hér og þakka fyrir góðar viðtökur. Ég trúi ekki öðru en að í umhverfis- og samgöngunefnd fái málið úrvinnslu, verði sent til umsagnar, tekið til umræðu í nefndinni og nefndin skili áliti til Alþingis, helst fyrir jól, svo að við getum samþykkt tillöguna. Eins og ég sagði áðan: Okkur ber að afsaka að ríkisvaldið og hið opinbera hafi látið sig þetta litlu varða undanfarin ár. Nú liggur okkur á.

Með leyfi forseta, ætla ég að lesa bréfið frá þessari tólf ára stúlku:

„Hæ, hæ. Hér eru spurningar til þín, Kristján: 1. Hef ég rétt á því að eiga heima hjá mömmu minni og pabba? 2. Hef ég rétt á að fá almenna aðstoð frá læknum í staðinn fyrir að læknar gefi manni bara lyf sem gera hreinlega ekkert gott? 3. Miðað við að ég er tólf ára, á ég að vera með verki í fætinum, bakinu og öllum liðum, kvef, magaverki, sjóntruflanir, kláða, kvíða, ávallt grátandi undan vanlíðan? Þetta eru mínar spurningar.“

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ágætt að við ljúkum umræðunni með þessu bréfkorni sem tólf ára stúlka sendi mér. Það er ágætt veganesti fyrir okkur alþingismenn. Þarna lýsir hún mörgu af því sem ég gat um í flutningsræðu minni, þ.e. ýmsum fylgikvillum.

Virðulegi forseti. Ég ætla rétt í lokin að taka undir það sem sagt var þegar rætt var um sveppasýkingu á öðrum stöðum. Á aðalheilbrigðisstofnun okkar, Landspítalanum, kom upp myglusveppur á þessu ári. Sex mjög færir sérfræðingar veiktust meðal annars vegna þessa. Það tók töluvert langan tíma hjá læknunum að greina hvað var að, en þegar sýni voru tekin var það augljóst. Ég endurtek þakkir mínar til þeirra þingmanna sem tekið hafa þátt í umræðunum og sýnt málinu mikinn stuðning.