143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

undanþágur frá upplýsingalögum.

[10:53]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir. Að sjálfsögðu ber að fylgja lögunum og það hefur verið gert í einu og öllu. Lögfræðingur forsætisráðuneytisins hefur útlistað þetta mjög greinilega í greinargerð þar sem hv. þingmaður getur kynnt sér það. Eins og ég nefndi í fyrra andsvari hafði ég allan vara á þegar ég var beðinn um að afgreiða þetta enda þótt um væri að ræða hefðbundna afgreiðslu sem rennur yfirleitt í gegn athugasemdalaust vegna þess að ég, eins og hv. þingmaður, vil gæta sérstaklega að því sem varðar upplýsingarétt almennings. Mér leið eins og verið væri að láta mig afgreiða eitthvað sem síðasta ríkisstjórn hafði ekki klárað og fyrir vikið hafði ég allan vara á og bætti við þessum fyrirvara.

Í þessu tilviki er ekkert að óttast en það er alveg sjálfsagt að nýta þetta mál sem áminningu um að menn passi upp á að fylgja ávallt í einu og öllu ákvæðum upplýsingalaganna.