143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hafði hugsað mér að eiga orðastað við hv. formann allsherjarnefndar en hún virðist hafa forfallast, en af alkunnri aðlögunarhæfni minni þá tala ég bara um annað. Ég var á jafnréttisþingi sem var sett í morgun en það er haldið annað hvert ár. Þar eru yfir 300 manns á skrá og í morgun kl. 9 voru yfir 250 mættir, konur og karlar, konur náttúrlega í meiri hluta. Mjög merkilegt þing.

Virðulegi forseti. Mig langar fyrst ég hafði tækifæri til að vera hérna akkúrat núna að leggja það til að Alþingi hafi framvegis í huga í starfsáætlun sinni að þessi dagur, þegar jafnréttisþing er, það er bara annað hvert ár, ég tek það fram, verði tekinn frá og hér séu ekki þingfundir svo að allir þingmenn geti mætt á það þing.