143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[14:49]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Þetta er hressandi. Þetta er skemmtileg vinna. Það er gaman að vera í þingsal yfir skemmtilegum umræðum. Mér finnst gott að við ræðum skýrslu ráðgjafarhóps um lagningu sæstrengs, en eins og komið hefur fram í þinginu og liggur fyrir í þingsályktunartillögu frá Bjartri framtíð tel ég að betra hefði verið fyrir gagnsemi umræðunnar og skilvirkni í þinginu að þingið hefði í höndum ítarlegri upplýsingar áður en farið er yfir málið, einmitt þær upplýsingar sem ráðgjafarhópurinn í skýrslunni leggur til að aflað sé. Þar eru taldar upp sjö tillögur til ráðherra sem næstu skref málsins. Ég tel mikilvægt að ráðherra grípi þann bolta og setji þá vinnu í gang svo við séum upplýst og getum talað um málið af gagnsemi.

Lagning sæstrengs til Evrópu er stærðarinnar mál. Það getur verið stórt mál fyrir ríkissjóð vegna auðlindarentu á rafmagni, það getur verið stórt mál fyrir ríkisreksturinn, það getur verið stórt mál fyrir rafmagnsreikning heimilanna, það getur verið stórt mál fyrir náttúruna og hafsbotninn, það getur verið stórt mál fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Íslandi og svo mætti lengi telja.

Enn sem komið er eru þessi mál þó öll á getgátustigi. Enn og aftur legg ég áherslu á að ráðherra láti kanna þessi mál frekar svo við höfum meiri upplýsingar. Þær eru forsendur fyrir góðri umræðu. Það má auðvitað segja að við séum á upphafsstigunum og þess vegna er öll umræða góð ef hún er málefnaleg og ég er hlynnt því og mikill talsmaður þess að við gerum hlutina af yfirvegun og vel. Mismunandi fólk og mismunandi þingmenn hafa mismunandi markmið og ólíka sýn. Hér eru ótal sjónarmið og það er mikilvægt að við vegum og metum þau af yfirvegun og séum með skýra sýn á markmiðin sem við viljum að nái fram að ganga. En það kitlar óneitanlega að hér sé mögulega komið tækifæri til þess að taka dágóða rentu af einni af meginauðlind þjóðarinnar, ekki í formi skyndigróða í skamma stund heldur sem stöðuga langtímafjárfestingu, því að eins og við vitum þá veitir okkur ekkert af því. Þetta er örlítil von, sérstaklega fyrir ungt fólk sem bera mun byrðar þeirra sem eldri eru.

Virðulegi forseti. Það verður bara að segjast að við bjóðum ekki upp á beysinn „díl“ fyrir ungt fólk í dag en vonin og traustið sem eflist til stjórnvalda vegna málefnalegrar umræðu um þetta mál sem og önnur getur haft þau áhrif að ungt fólk fer síður að ókyrrast, heldur frekar kyrru fyrir og hjálpar til við að leysa vanda samtímans vegna þess að það trúir því og treystir að við séum að róa að því öllum árum að byggja því bjarta framtíð. Hingað til hefur ekki gengið neitt sérstaklega vel að selja rafmagn, það hefur ekki verið mjög arðsamur „bisness“ fyrir þjóðarbúið. Flestir, ef ekki bara allir, eru sammála því að mikil gæði eru fólgin í því að fjölskyldur og heimili njóti rafmagns á lágu verði en fólk skiptist í fylkingar gagnvart þeirri staðreynd að stóriðja borgar afskaplega lítið fyrir raforkuna, stundum svo lítið að orkufyrirtækin sjá ekki neinn hag af samningunum, hvað þá við eigendurnir sem viljum að auðlindin skili sér til samneyslunnar.

Það er mikil synd að mínum dómi að vilja viðhalda slíkri stöðu en ég get þó vel skilið hvaðan sú örvænting sprettur. Það er örvænting gagnvart því að fólk fái ekki vinnu og geti ekki séð sér og sínum farborða. Það er vissulega réttmætt og ég geri ekki lítið úr því. Andúðin við stóriðjuna er ekki falin í því að fólki líki ekki húsakosturinn eða það sem þar er framleitt. Andúðin er einmitt sprottin af sömu örvæntingu og því sem varðar heill fólksins, um að við séum að skapa ósjálfstæðan og ósjálfbæran heim fyrir heilu byggðarlögin.

Einhverjum kann að finnast ég vera farin út fyrir efnið en umræða um raforku um sæstreng, tækifærin og takmarkanirnar, hefur ótal hliðar. Það er umræða um stöðu samfélags okkar til framtíðar, um umhverfi okkar og náttúru, um félagslegan ávinning, hagræn áhrif og þannig má áfram telja. Það er ágætt að fólk kafi svolítið inn á við og fari til baka í gildin sín þegar það hugsar þetta mál. Ég veit ekki hvort ég þekki stef sjálfstæðismanna of illa, en síðan hvenær vilja þeir takmarkanir á markaðssvæðum og viðskiptum? Á eitthvað annað við um rafmagn en til dæmis fiskinn? Megum við þá selja hann til útlanda? Eigum við ekki bara að sleppa því þá?

Og Framsókn. Í grundvallarstefnu ykkar segir, með leyfi forseta:

„Við höfum ríkum skyldum að gegna varðandi samvinnu við aðrar þjóðir um lausn sameiginlegra verkefna.“

Það hlýtur að eiga við um loftslagsbreytingar og notkun á grænni orku á heimsvísu. Ég vísa til stefnuræðu forsætisráðherra hér í salnum sem við munum öll eftir, um kolin og hvað okkar græna orka getur hjálpað til varðandi það.

Að sama skapi ætti þetta líka við um VG og Samfylkingin hefur mikið talað um að fá sem hæst verð fyrir auðlindirnar, til dæmis fiskinn, og það hlýtur að vera eins hér. Við skulum muna að við erum enn í stóru myndinni, kæru þingmenn, undirkaflarnir eru enn ómótaðir en þeir skrifa sig ekki sjálfir.

Herra forseti. Þetta er svona svipað og með ESB. Ég vil fá að sjá hvað er í boði. Ég vil fá ígrundaðar upplýsingar, ekki getgátur, áður en ég get tekið afstöðu með eða á móti sæstreng. Ég tek þess vegna undir með hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur um að hvetja ráðherra til þess að afla þessara upplýsinga eins og við í Bjartri framtíð höfum lagt til með þingsályktunartillögu okkar.

Mig langar að bregðast við því sem þingmenn hafa sagt hér. Lilja Rafney Magnúsdóttir talaði um að dreifing raforku núna væri ekki beysin. (Gripið fram í: Háttvirt.) — Háttvirt, fyrirgefðu, sérlega háttvirt. En ég sé ekki alveg að lagning sæstrengs og uppbygging á línu til handa honum þurfi að stangast á við þetta, það geti miklu frekar hjálpað til. En þetta eru getgátur hjá mér og við tölum svolítið á þessum nótum núna. Bæði hæstv. iðnaðarráðherra Ragnheiður Elín Árnadóttir sem og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir tala um að þær vilji ekki flytja út hrávöru frá Íslandi. Eigum við þá ekki bara að loka álverunum? (Gripið fram í.) Já, fyrirgefðu, höfum þetta alveg rétt. Álið er hrávara. Við flytjum það nú þegar út — eða ekki við heldur erlend fyrirtæki, þau flytja það frá Íslandi. Það er kannski hugmynd uppi um að fara að stofna kókdósaverksmiðjur eða eitthvað, ég veit það ekki. Ég segi þetta af því að ég hef heyrt þetta svolítið í þessari umræðu og mér finnst að við ættum að sleppa því að tala um þetta með þessum hætti.

En svo ég ljúki máli mínu þá fagna ég góðri og málefnalegri umræðu og vona að við getum haldið henni áfram. Ég tel hana mikilvæga og hlakka til að heyra hvað kemur næst.