143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

fjárfestingaráætlun.

[17:31]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir með þeim sem vilja ekki heyra: Svona gerði síðasta ríkisstjórn o.s.frv. Síðasta ríkisstjórn lagði samt fram þessa sóknaráætlun og kynnti hana. Við fengum tækifæri til að ræða hana úr þessum ræðustól og vorum einfaldlega ekki sammála um fjölmörg af þeim verkefnum sem tilgreind eru í áætluninni. Svo voru haldnar alþingiskosningar og það var myndaður nýr meiri hluti. Að sjálfsögðu hlaut hann að leggja nýjar áherslur og kannski koma fram með þær áherslur sem hann talaði fyrir í kosningabaráttunni.

Sóknaráætlun 20/20 er ágæt út af fyrir sig en menn verða samt að setja hana í samhengi við allan niðurskurðinn og allar álögurnar á landsbyggðina. Það er ekki að ástæðulausu sem ég mætti á hvern borgarafundinn á fætur öðrum, fyrst út af niðurskurði í heilbrigðismálum, gríðarlega umfangsmiklum niðurskurði, svo út af skattlagningu á sjávarútvegsfyrirtæki sem hefði væntanlega farið mjög illa með mjög margar sjávarbyggðir eins og álit fjölmargra sveitarstjórna gefa til kynna.

Því skal haldið til haga að margt, eins og fjármagn til brothættra byggða, er nokkuð sem ég mundi vilja sjá sett aftur inn í fjárlögin. Vonandi tekst okkur það hér í ágætissamvinnu.

Ég held svo að við þurfum að taka byggðamálin sterkari tökum. Ég vann að því að lögð var fram mjög metnaðarfull áætlun innan Framsóknarflokksins, Jöfnun til búsetu, þar sem leitað var til Norðmanna og skoðaðar þær leiðir sem þeir fóru og báru árangur. Þær leiðir mynduðu hagvöxt. Þar liggur (Forseti hringir.) hundurinn grafinn, öll sú fjárfesting sem við ætlum að ráðast í mun væntanlega skila auknum hagvexti í þjóðarbúið.