143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

nauðungarsölur.

[10:59]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Varðandi þann dóm sem féll í Evrópu, um að ekki megi vísa fólki út af heimili sínu fyrr en dómar taka af allan vafa um lögmæti lána, segir hæstv. innanríkisráðherra að hann sé ekki endilega talinn eiga við hér á landi. Á þá ekki að fara í að skoða hvort hann eigi við? Hann á kannski við. Innanríkisráðherra hefur valdheimildir til að hefja dómsmál til að tryggja heildarhagsmuni lántakenda, heildarhagsmuni neytenda og lántakenda í þessu tilfelli. Hvers vegna er ekki farið af stað í þá málsókn, eitthvert mál tekið eða nokkur mál og þau notuð sem prófmál, farið með þau alla leið og fengið úr þessu skorið?

Varðandi það sem hæstv. innanríkisráðherra segir, að það sé löggjafans að fresta nauðungarsölum ef hann vilji, þá liggur frumvarp núna fyrir þinginu um breytingar á lögum um nauðungarsölu, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi þessu er lagt til að Íbúðalánasjóði verði tímabundið óheimilt að krefjast nauðungarsölu á fasteign eða ráðstöfun hennar.“

Þetta er frumvarp (Forseti hringir.) sem þingmenn Pírata, Framsóknar, Samfylkingar (Forseti hringir.) og Bjartrar framtíðar hafa lagt fram. Þetta hefur bara að gera með (Forseti hringir.) Íbúðalánasjóð og löggjafinn Alþingi (Forseti hringir.) hefur heimild til þess að vera með stefnumótandi lög í slíkum málum. Með því móti er hægt að koma (Forseti hringir.) helmingi heimila landsins í skjól.