143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

löggæsla í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð.

130. mál
[16:23]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langaði aðeins að koma inn í þessa umræðu þar sem þetta snertir jú mína heimabyggð. Það er rétt sem hv. þm. Kristján Möller sagði áðan, þetta var eitt af því sem kom töluvert til umræðu hjá okkur í kjördæmavikunni. Það er ekki bara að áhættan sé aukin vegna þess að Múlinn verður ófær heldur er það líka hinum megin frá, Almenningarnir og Fljótin. Þetta eru erfiðir staðir og sú staðreynd að þarna eru fern göng í einu sveitarfélagi getur skapað töluverða hættu, bæði innan þeirra, milli þeirra og utan. Ég tel því að slík fjölgun sé mjög brýn og það hefur komið í ljós nú þegar.

Eins og hæstv. ráðherra sagði og hefur sagt áður í samtali okkar um löggæsluna var skýrslan góða í mars afar áhugaverð og ég tók þátt í umræðu um hana þá. En mig langar að spyrja, af því að ráðherrann nefndi starfshópinn: Hvenær má vænta niðurstöðu, hvenær er áætlað að starfshópurinn skili af sér?