143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

Saurbær í Eyjafirði.

131. mál
[16:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram í kynningu forseta hef ég leyft mér að leggja svohljóðandi fyrirspurn fyrir hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um Saurbæ í Eyjafirði: Hvað er því til fyrirstöðu að samið sé við Eyjafjarðarsveit um ráðstöfun á húsnæði á jörðinni Saurbæ, samanber heimild í fjárlögum?

Virðulegi forseti. Tilefni þessarar fyrirspurnar kemur úr kjördæmaviku þar sem sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar kom til fundar við okkur þingmenn og bar upp erindi sitt. Þetta heimildarákvæði er í fjárlögum, bæði frá árinu 2012 og 2013, í grein 7.7 um Ýmsar heimildir: „Að semja við Eyjafjarðarsveit um ráðstöfun á húsnæði á jörðinni Saurbæ í Eyjafjarðarsveit í þágu safnastarfsemi.“

Ég vek athygli á því að í greininni stendur „að semja við“, ekki að „ganga til samninga við“.

Virðulegi forseti. Eyjafjarðarsveit hefur byggt upp myndarlegt smámunasafn sem heitir Smámunasafn Sverris Hermannssonar og varð það tíu ára í sumar. Það er rekið í húsnæði sem heitir Sólgarður í Eyjafjarðarsveit og er staðsett á jörðinni Saurbæ. Þetta er mikið og gott safn, mjög merkilegt, sem Sverrir Hermannsson húsasmíðameistari á allan heiður af. Sverrir fór aldrei leynt með að söfnunaráhugi hans var mikill í gegnum líf hans sem og starf við að gera upp gömul hús og kirkjur þar sem hann hefur safnað saman allt að þúsund hlutum hvert ár í heil 50 ár. Smámunasafnið, eins og það hefur verið nefnt, hefur þá sérstöðu að vera ekki safn einhverra ákveðinna hluta heldur allra mögulegra hluta. Hversdagslegir hlutir eru þar mitt á meðal afar óhefðbundinna hluta. Því hefur safnið stórkostlegt menningarlegt gildi fyrir okkur og komandi kynslóðir.

Á jörðinni er líka Saurbæjarkirkja sem er ákaflega merkileg torfkirkja, sem var byggð árið 1858 og er ein örfárra torfkirkna sem enn standa hér á landi, en að innan er hún þiljuð í hólf og gólf.

Þetta snýst ekki um kirkjuna að þessu sinni heldur um jörðina. Ég hef lagt fram þá fyrirspurn sem ég las í upphafi til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra vegna þess að heimildin hefur verið í tvennum fjárlögum, en ekki hefur gengið að ná þessu fram.

Virðulegi forseti. Ég vil segja að þeim tveimur fyrirspurnum sem ég lagði fram áðan hefur verið svarað. Önnur var um Dettifossveg og sagði hæstv. innanríkisráðherra að verkið yrði boðið út í vetur og byrjað í vor og hin var um fjölgun löggæslumanna í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð þar sem svarið var að þeim yrði fjölgað. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra komi og segi að þetta mál verði klárað á morgun eða kannski í þessari viku, að hann verði jafn röggsamur og hæstv. innanríkisráðherra sem hefur (Forseti hringir.) svarað tveimur fyrirspurnum mínum.