143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

flutningur verkefna frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsembætta.

161. mál
[16:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Já, ég fagna þessari umræðu um innflytjendur, sérstaklega fagna ég viðhorfi hæstv. innanríkisráðherra. En nú vil ég víkja að því sem við vorum að tala um þar áður.

Ég hef ekki lesið frumvarpið alveg í gegn og ekki klórað mig í gegnum hvert einasta smáatriði, en í fljótu bragði líst mér mjög vel á það, sérstaklega eftir ræðu hæstv. innanríkisráðherra. Mig langar að nefna sérstaklega þá valddreifingu sem ég skynja þarna eftir orð hæstv. ráðherra, því að með valddreifingu hljótum við líka að meina framkvæmdadreifingu. Þá á ég við að verkefnum verði úthlutað í meira mæli niður á stofnanir utan Reykjavíkur. Það verður að segjast eins og er að eitt af helstu umkvörtunarefnunum sem ég heyri frá landsbyggðarfólki er að við búum í mjög Reykjavíkurmiðuðu landi. Það er einhvern veginn þannig að í Reykjavík eru flestar stofnanirnar og fólk þarf að sækja til Reykjavíkur utan af landsbyggðinni til þess að gera alls kyns hluti sem mætti alveg gera úti á landi. Mér sýnist þetta frumvarp og vissulega líka orð hæstv. innanríkisráðherra miða að því að færa stofnanir út á land og ég fagna því mjög. Ég lít á þetta sem lýðræðislegar betrumbætur og fagna þeim sérstaklega. Ég vil líka taka fram að sjaldan hafa verið jafn góð tækifæri til þess og núna að færa verkefni út fyrir Reykjavík, sérstaklega með aukinni tækni þar sem verkefnin geta verið víðs vegar um landið. Þá er samt hægt að hafa til dæmis miðlæga gagnasöfnun eða úrvinnslu gagna.

Ef við hefðum lagst í þessar breytingar fyrir 100 árum eða svo hefði það væntanlega búið til meiri glundroða. En núna er tækifæri til þess að gera þetta mjög vel með aðstoð tækninnar og þjóna hagsmunum landsbyggðarinnar betur án þess að valda einhvers konar upplýsingaglundroða eða stjórnsýsluóreiðu. Hér eru tækifærin nýtt verulega vel og ég lýsi yfir stuðningi við þetta góða frumvarp og hlakka til að skoða það betur í nefnd.