143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

aukatekjur ríkissjóðs.

157. mál
[16:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs. Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru í meginatriðum þríþættar.

Í fyrsta lagi varða þær breytingar á starfsheitum heilbrigðisstarfsmanna til samræmis við ákvæði laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, þar sem nýjum heitum yfir löggiltar heilbrigðisstéttir var bætt við og önnur aflögð heiti felld út. Þær starfsstéttir sem bætast við lögin um aukatekjur ríkissjóðs samkvæmt frumvarpinu eru áfengis- og vímuvarnaráðgjafar, næringarrekstrarfræðingar, osteópatar og stoðtækjafræðingar. Engar breytingar eru lagðar til á fjárhæðum gjalda vegna þessara leyfisveitinga.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á lagatilvísunum vegna breytinga á öðrum lögum og í þriðja lagi eru breytingar er varða lög nr. 38/2011, um fjölmiðla. Með þeim voru útvarpslög felld úr gildi og eru í þessu frumvarpi lagðar breytingar til samræmis við fjölmiðlalögin. Í fjölmiðlalögunum er talsvert önnur hugtakanotkun en var í útvarpslögunum. Meðal annars er kveðið á um leyfi til hljóð- og myndmiðlunar í stað sjónvarps og útvarps, leyfi til hljóð- og myndmiðlunar verða gefin út sem skammtímaleyfi til allt að þriggja mánaða og almenn leyfi verða gefin út til allt að sjö ára.

Gildistími leyfa samkvæmt fjölmiðlalögum er annar en var samkvæmt útvarpslögum og þess vegna breytast fjárhæðir gjaldsins en þær eiga að vera hlutfallslega þær sömu og nú er.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.