143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

nauðungarsala.

150. mál
[11:55]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P):

Herra forseti. Í frumvarpi þessu er lagt til að Íbúðalánasjóði verði tímabundið óheimilt að krefjast nauðungarsölu á fasteign eða ráðstöfun hennar. Á það við um húsnæði sem ætlað er til búsetu þar sem gerðarþoli á lögheimili og heldur heimili. Það þýðir að Íbúðalánasjóði er tímabundið óheimilt að krefjast nauðungarsölu á heimili landsmanna þar sem fólk býr.

Ríkisstjórnin hefur ítrekað lýst því yfir að hún ætli að taka á skuldavanda íslenskra heimila og er það mat flutningsmanna þessa frumvarps að nauðsynlegt sé að skapa svigrúm fyrir skuldug heimili á meðan beðið er eftir úrskurði EFTA-dómstólsins, sem Hæstiréttur bað um að skera úr um lögmæti verðtryggðra húsnæðislána, og flýtimeðferð þeirra dómsmála um verðtrygginguna og gengistryggingu sem er núna í ferli samkvæmt lögum sem innanríkisráðherra fékk samþykkt á þinginu í sumar. Það er því í gangi flýtimeðferð dómsmála um verðtrygginguna og við erum að bíða eftir úrskurði frá EFTA-dómstólnum um lögmæti verðtryggingarinnar og svo erum við náttúrlega líka að bíða eftir skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar. En samt er heimilum ekki komið í skjól þar til orðið er skýrt hvert lögmæti þessara lána er og hvort fólk á rétt á leiðréttingu vegna forsendubrests í kjölfar hrunsins, en ríkisstjórnin ætlar að leiðrétta lánin á þeirri forsendu.

Þetta frumvarp veitir frest, svigrúm og skjól vegna þessara fyrrgreindu mála og annarra óvissuþátta sem kunna að standa í vegi fyrir því að tekið verði á skuldavandanum. Frumvarpið er hugsað sem leið til að skapa slíkt svigrúm og skjól fyrir heimilin í landinu.

Þetta frumvarp á aðeins við um Íbúðalánasjóð, því miður. Það er vegna þess að innanríkisráðherra hefur ítrekað sagt að hún muni ekki stöðva nauðungarsölur sem fara fram að kröfu einkabankanna, að kröfu einkaaðila, og ber hún þá við eignarrétti kröfuhafa.

Í tilfelli Íbúðalánasjóðs er ríkið eigandi, ríkið á Íbúðalánasjóð og löggjafinn, Alþingi, hefur vald til þess að móta stefnu Íbúðalánasjóðs með lögum og það er það sem frumvarpið gengur út á; að móta stefnu Íbúðalánasjóðs. Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Frá gildistöku laga þessara ber sýslumanni að verða við ósk gerðarþola um að fresta fram yfir 30. september 2014 töku ákvörðunar um framhald uppboðs eða ráðstöfun eignar á almennum markaði ef Íbúðalánasjóður leitar nauðungarsölu á grundvelli 6. gr. á fasteign þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skráð lögheimili, enda sé um að ræða húsnæði sem er ætlað til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda.“

Það er líka vert að taka fram að þetta frumvarp er í tveim stuttum greinum; önnur greinin fjallar um að stöðva nauðungarsölurnar, að þær séu óheimilar, og hin greinin, 2. gr., skýrir frá því að lögin öðlist þegar gildi. Sambærileg frumvörp hafa verið flutt tvisvar sinnum áður og samþykkt tvisvar sinnum af Alþingi á síðasta kjörtímabili. Þá náðu þau yfir allar lánastofnanir sem áttu kröfu á húsnæði landsmanna. Þetta frumvarp tekur bara á Íbúðalánasjóði til þess að innanríkisráðherra geti ekki bara slegið það út af borðinu á þeim forsendum að verið sé að ganga gegn eignarrétti kröfuhafa.

Ef innanríkisráðherra eða þingmenn Sjálfstæðisflokksins líta svo á að víkka eigi út frumvarpið í meðferð nefndarinnar, þ.e. að það eigi, eins og á síðasta kjörtímabili, að frysta nauðungarsölur tímabundið á öllum heimiliseignum og öllum húseignum landsmanna, munum við að sjálfsögðu styðja það. En nú er fókusinn á Íbúðalánasjóð svo ekki sé hægt að slá það út af út af borðinu.

Ég held að þetta sé í rauninni allt það sem ég vildi sagt hafa. Þá óska ég eftir að málinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og að það fái málefnalega og góða umræðu þar.

Í lokin vil ég benda landsmönnum á að þetta mál er algjörlega þingtækt. Heimildirnar eru til staðar hjá löggjafanum, þetta stangast ekki á við nein eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Nákvæmlega samhljóða mál, að vísu í miklu víðara samhengi, var samþykkt hér á Alþingi tvisvar sinnum á síðasta kjörtímabili. Það eina sem vantar er raunverulegur pólitískur vilji til þess að koma málinu áfram. Það er algjörlega þingtækt.

Þá er það spurningin: Hverjir hafa vald til þess að ýta málinu áfram — nú eða að svæfa það hér í þinginu? Það er fyrst og fremst nefndarformaður, formaður nefndarinnar sem ræður því hvort þetta mál verður á dagskrá, hvort umræða um þetta lagafrumvarp fer á dagskrá nefndarinnar. Í öðru lagi er það meiri hluti þeirrar nefndar, hann getur samþykkt að málið verði tekið út úr nefndinni og fari aftur inn í þingið. Í þriðja lagi hefur þingforsetinn dagskrárvald yfir þinginu og ræður því hvort málið fer til 2. og svo 3. umr. í þinginu og síðan til atkvæðagreiðslu. Að lokum getur meiri hluti þingsins samþykkt frumvarpið, gert það að lögum og komið helmingi heimila landsins sem eru með íbúðalán sín hjá Íbúðalánasjóði í skjól.