143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

heilbrigðismál á landsbyggðinni.

[13:36]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir að vekja máls á þessu mikilsverða verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Ég tel rétt í þessu sambandi, þegar við ræðum heilsugæslu- og heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, að vitna til stórmerkilegrar vinnu sem unnin var á vegum embættis landlæknis frá því í maí 2012 til júní 2013. Embættið fór um allt land á helstu heilbrigðisstofnanir og hitti þar meðal annars 350 heilbrigðisstarfsmenn, ég vitna til þeirrar niðurstöðu í svörum mínum við ágætri ræðu hv. þingmanns.

Í þeirri úttekt sem gerð var og var birt hjá landlækni í ágúst kom fram að umgjörð heilbrigðisstofnana er víðast hvar góð. Hún ber þess hins vegar sums staðar merki að meiri áhersla er lögð á að efla þjónustu sjúkrasviðs stofnana frekar en umgjörð heilsugæslunnar.

Samantektin hjá landlækni ber með sér að heilbrigðisþjónustan á landsbyggðinni stendur frammi fyrir margvíslegum vanda sem kallar á úrlausn allra sem að málum koma á næstu árum en þrátt fyrir þau krefjandi verkefni sem blasa við er þó hægt að draga þá ályktun að sú góða heilbrigðisþjónusta sem landsmenn njóta í dag og góður árangur hennar byggist á áratugalangri uppbyggingu og aðkomu fjölmargra heilbrigðisstétta. Hins vegar hefur vandamál á einum stað keðjuverkandi áhrif á allt aðra þætti í heilbrigðiskerfinu.

Verkefnin sem þarf að takast á við eru af margvíslegum toga. Þau eru ýmist staðbundin, sem þarfnast þá sértækra lausna, og líka almenn, sem ganga þá þvert á stofnanir. Úrlausn þeirra mun hreyfa við öllum þáttum heilbrigðiskerfisins.

Eitt af því sem mönnum yfirsést oft í þessari umræðu er það hvernig við mætum þeim væntingum sem gerðar eru til heilbrigðisþjónustunnar af íbúum hinna mismunandi svæða, um öryggi og gæði í þjónustu, hvernig kerfið stendur undir þeim. Oft er vitnað til umræðunnar um Landspítalann, sérstaklega í ljósi umræðu síðustu vikna. Ég legg áherslu á að ákvörðun um framtíðaruppbyggingu og -þróun Landspítalans mun hafa áhrif á möguleika þess flaggskips í íslensku heilbrigðisþjónustunni, sem hann er, til að veita öllum landsmönnum nauðsynlega þjónustu. Og þegar maður horfir á kerfið í heild sinni erum við þegar að hefja vinnu við að reyna að stýra flæði sjúklinga á milli þessara sérhæfðu stofnana, sjúkrahúsanna stóru, og síðan heilsugæslunnar í landinu.

Ég vil nefna sérstaklega, vegna áhyggna sem komu fram í umræðunni um heilbrigðismálin, varðandi það hvernig samdráttur í sérhæfðri þjónustu veldur því að við stöndum með ónýttar byggingar, að okkur ber að skoða hvernig unnt er að nýta betur það húsnæði og þann aðbúnað sem fyrir er, t.d. í þjónustu við langvinna sjúkdóma, lífsstílssjúkdóma o.s.frv. sem hv. þingmaður nefndi. Við þekkjum mörg góð dæmi um slíka vinnu á landsbyggðinni.

Almennt kemur fram í þessari samantekt ánægja með sameiningu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Þær eiga sér mislanga sögu og liggur fyrir að sameiningin hefur eðlilega ekki alltaf verið hnökralaus og án erfiðleika. Hins vegar er það sammæli meðal stjórnenda og þess starfsfólks sem þar vinnur, ánægja með ákveðna þætti sem hafa auðveldað starfið á upptökusvæði viðkomandi heilbrigðisstofnana. Eftir sameiningu er það mat þessa fólks að faglegt samstarf hafi aukist og stofnunum gefist tækifæri til að styrkja vaktþjónustu á upptökusvæðum sínum með því að hreyfa til starfsfólk eftir því sem þörf krefur. Svo má nefna birgðahald o.s.frv.

Menn hafa áhyggjur af þjónustu lækna og hvernig okkur gengur að halda í þá. Ég legg áherslu á að góð heilsugæsla á landsbyggðinni og þróun hennar er ekki andstæð því verkefni að byggja upp öflugar stofnanir eins og stóru sjúkrahúsin. Raunar má færa rök fyrir því að heilsugæsla sem nýtur ekki öflugs stuðnings slíkra sérhæfðra stofnana stendur veikburða frammi fyrir þeim mörgu og flóknu vandamálum sem heilsugæslan er að kljást við í daglegum störfum sínum. Með sama hætti má segja að góð og framsækin sjúkrahúsþjónusta stendur ekki ein og sér undir góðri heilbrigðisþjónustu. Því stendur valið ekki um það annaðhvort að byggja upp stóru sjúkrahúsin fyrir flóknu læknisfræðilegu úrlausnarefnin eða efla heilsugæslu eða forvarnastarf. Við verðum að huga að hvoru tveggja. Þetta verður að fara saman.

Ég er sannfærður um að við munum standa vörð um íslenska heilbrigðiskerfið og við ætlum að tryggja að allir landsmenn njóti áfram góðrar þjónustu. Við ætlum að gera það eftirsóknarvert fyrir fólk að mennta sig til starfa innan þessa geira.