143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

heilbrigðismál á landsbyggðinni.

[13:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Já, mörg hjúkrunarheimili á landsbyggðinni búa við uppsafnaðan rekstrarvanda og þurfa því aukið fjármagn og víða þarf að fá samþykkt til að breyta dvalarrýmum í hjúkrunarrými svo að reksturinn réttist af.

Ég tek undir með hv. þingmanni sem talaði hér á undan mér að mikil vonbrigði voru að sjá að ekki er gert ráð fyrir endurskipulagningu á sjúkrahúsinu í Stykkishólmi á fjárlögum þessa árs eins og var gert á sjúkrahúsinu á Selfossi. Miklar áhyggjur eru víða, t.d. í Vestmannaeyjum af þjónustuskerðingu þar á sjúkrahúsinu. Það hafa komið skilaboð frá Sjúkrahúsinu á Akureyri um að 200 milljónir vanti til að komst megi yfir sársaukamörk í þjónustu og aukin þörf sé á þjónustu vegna geðlækninga og slysa- og bráðaþjónustu.

Launamál, tækjabúnaður og aukin sérhæfing eru allt þættir sem brenna á heilbrigðisstofnunum og miklu skiptir hvernig búið er að heilbrigðisstofnunum landsins og hvernig tekst að manna þær í framtíðinni. Á sumum stöðum er staðan góð en á öðrum gengur illa að halda í lækna og sérfræðinga og annað heilbrigðisstarfsfólk. Það er kannski ekki skrýtið miðað við að það gengur líka illa að manna Landspítalann. Þá segir það sig sjálft að enn erfiðara er að manna stofnanir víða í dreifðum byggðum landsins.

Öll viljum við vonandi góða og öfluga heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, ég trúi því, sem og á höfuðborgarsvæðinu. Það er því mikilvægt að skilgreina þjónustuna vel svo að fjármagnið nýtist sem best og vinna með heimamönnum og heilbrigðisstéttum að góðri og öflugri heilbrigðisþjónustu um land allt, sem stenst nútímakröfur almennings um góða og skilvirka þjónustu.

Það hafa komið sterk skilaboð víðs vegar af landsbyggðinni um að lengra verði ekki gengið í hagræðingu og nú verði að fara í uppbyggingu eins og fyrirætlanir voru um hjá fyrri stjórnvöldum í síðasta fjárlagafrumvarpi. Þess vegna treysti ég því og skora á hæstv. heilbrigðisráðherra að vinna það verkefni áfram með uppbyggingu í huga á landsbyggðinni sem og á höfuðborgarsvæðinu.