143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:50]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að við hv. þm. Katrín Jakobsdóttir deilum þeirri skoðun að það hefði átt að vinna þetta með öðrum hætti og hefði verið eðlilegra að reyna að vinna á þeim grunni sem kominn var. Þess vegna langar mig til að heyra hvort það sé ekki eðlileg krafa til nefndarinnar, af því að hv. þm. Katrín Jakobsdóttir situr þar og fær kannski lengri tíma til að vinna með þetta þar og ég sé að hv. formaður nefndarinnar hlustar hér á, að kalla eftir því frá ráðuneytinu og frá hæstv. ráðherra að það komi listi yfir nákvæmlega þau atriði sem þarf að skoða. Þá er hægt að glíma við þau og fjalla um þau.

Við höfum heila hvítbók og við erum með frumvarp upp á 118 blaðsíður og þá skulda menn það að skerpa fókusinn og skýra betur út hvað er það sem er ágreiningur um og þarf að laga. Við höfum aðeins heyrt nokkur atriði. Ég held að þetta sé líka mikilvæg forsenda fyrir þingið til að fá gagnrýni á þá vinnu sem þar var unnin (Forseti hringir.) þannig að við getum þá lært af því vinnulagi. Hér er ríkisstjórn sem boðar sátt en hún virðist ætla að velja við hverja eigi að gera sátt.