143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:31]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála. Ég held að það sé leiðin út úr þessu. Mér finnst ríkisstjórnin vera komin í svolitlar ógöngur með því að leggja til að fella þetta allt úr gildi, alla þessa miklu vinnu, alla þá málamiðlun sem búið er að reyna að gera. Mér finnst utanvegaaksturinn sérstaklega vera dæmi um það. Þarna er reynt að finna leið til þess að menn geti verið á vélknúnum ökutækjum út um landið þvert og endilangt. Mér skilst líka að almannaréttur þeirra sem eru á slíkum ökutækjum sé aukinn með frumvarpinu. Ef menn koma til dæmis að einkavegi þar sem stundum er sett keðja fyrir og skilti um að þetta sé einkavegur, allur akstur bannaður, geta þeir gert athugasemdir við það og fengið úr því skorið hvort hægt sé að loka þeim vegi fyrir almennri umferð.

Jú, ég tel að (Forseti hringir.) umhverfis- og samgöngunefnd ætti að líta þannig á málið að nota sem (Forseti hringir.) mest úr frumvarpinu sem til er.