143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[19:10]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Menn þurfa ekki einu sinni að leita langt inn á eða út í einhver víðerni til að verða vitni að því sem hv. þingmaður lýsti hér. Meira að segja á Hallormsstaðahálsinum er stundaður töluverður utanvegaakstur, ég hef sjálfur orðið vitni að honum.

Sem betur fer tókst á síðasta kjörtímabili að setja inn breytingu í gildandi náttúruverndarlög hvað varðar beinar refsingar fyrir náttúruspjöll af völdum utanvegaaksturs. Dæmin sýna að nauðsynlegt er að skýr viðurlög séu við því að aka utan vega en þegar engin klár skilgreining liggur fyrir á því hvað sé vegur, hvað sé löglegur slóði, þá er mjög erfitt að sanna utanvegaakstur á nokkurn mann. Það er auðvitað þannig að bróðurpartur þeirra ferðamanna sem aka um hálendið og eru á breyttum jeppum gerir það löglega. En lítið brot gerir það ekki og við þurfum að vera í stakk búin til að horfast í augu við þann veruleika.