143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

ný stofnun um borgaraleg réttindi.

[14:10]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem á upphaf sitt að rekja til tillögu hagræðingarhóps stjórnvalda um að setja á stofn stofnun borgaralegra réttinda með þeim hætti sem þar er lagt til og að stofnanir sem hv. þm. Freyja Haraldsdóttir fór í gegnum yrðu sameinaðir í eina stofnun undir þessu nafni.

Mér finnst margt í tillögum hagræðingarhópsins áhugavert. Eins og kemur fram í skjalinu er þegar farið að vinna að sumu í velferðarráðuneytinu og ég get upplýst hv. þingmenn hér að hluti þeirrar tillögu sem þar kemur fram er í samræmi við vinnu sem er þegar hafin í ráðuneytinu og snýr að sameiningu Fjölmenningarseturs, Jafnréttisstofu og réttindagæslu fatlaðs fólks í eina stjórnsýslustofnun á sviði jafnréttismála. Það kemur meðal annars fram í þingmálaskránni sem var lögð fram í upphafi þessa þings að til standi að leggja fram frumvarp á þessu sviði, nokkur frumvörp í raun og veru. Við höfum verið að vinna að smíði frumvarps sem hefur þann tilgang að sameina lagaákvæði um stjórnsýslu í tengslum við framkvæmd ýmissa laga á sviði jafnréttismála í eina löggjöf. Hér er verið að tala um jafnréttishugtakið í víðari skilningi en hefur almennt tíðkast að ræða á Íslandi þar sem við höfum almennt talað um jafnrétti í tengslum við kynjajafnrétti. Hér er hins vegar verið að huga að því hvernig hægt sé að beita sér gegn mismunun á grundvelli ýmissa annarra þátta.

Hugmyndin er þá að ráðherra fari með yfirstjórn á sviði jafnréttismála um jafna meðferð óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð og kynvitund. Í þeirri vinnu sem hefur verið í gangi er gert ráð fyrir að ein stofnun mundi þá annast stjórnsýslu á þessum þáttum og mundi þá fjalla um jafna meðferð kynjanna, bæði innan og utan vinnumarkaðar og í nánu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, og jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna utan vinnumarkaðar. Í ljósi þessa þótti eðlilegt að litið væri til skipulags stjórnsýslumála í einum lögum til að tryggja þá heildaryfirsýn í þessu sambandi í staðinn fyrir að dreifa þeim í fleiri en ein lög.

Kostir þess að huga að þessu er að þá yrði til ein öflug stofnun á sviði jafnréttismála í stað fleiri smærri. Eins og kom fram á málþingi sem var haldið í dag er beinn rekstrarkostnaður við yfirstjórn og sameiginlega stofnþjónustu minni stofnana hlutfallslega mun hærri hjá smærri stofnunum á vegum hins opinbera en hjá stærri stofnunum. Til dæmis er Fjölmenningarsetrið ein minnsta stofnunin á vegum velferðarráðuneytisins. Þótt ég sé ekki beint að bera þetta upp á Fjölmenningarsetrið hafa menn talað um að hjá mjög smáum stofnunum geti sá kostnaður sem ég nefndi vegna yfirstjórnar og sameiginlegrar þjónustu verið allt að 30–40% af heildarrekstrarkostnaði en um 10% hjá stærri stofnunum. Ég hef viljað nálgast þessar tillögur frá hagræðingarhópnum þannig að þar sé verið að benda á leiðir til að við getum gert meira fyrir það takmarkaða fé sem við höfum. Ég held að flestir sem hafa komið nálægt velferðarráðuneytinu séu sammála því að svo sannarlega veiti ekki af því að gera meira. Það er mikil krafa um að gera meira fyrir það takmarkaða fé sem við þó höfum.

Þær þrjár stofnanir sem ég nefndi eru að mörgu leyti mjög sambærilegar í dag en þær gegna forvarnahlutverki og sinna fræðslu- og upplýsingastarfsemi til ýmissa aðila og svo hafa þær ákveðið eftirlitshlutverk í tengslum við framkvæmdir laga á málefnasviði sínu sem öll fjalla með einum eða öðrum hætti um jafna meðferð einstaklinga. Það er þá hugsunin að þetta yrði áfram verkefni þessara stofnana og hugað sérstaklega að því sem snýr að jafnri meðferð á vinnumarkaði óháð framangreindum mismunarþáttum og síðan eru þessir tveir þættir fyrir utan vinnumarkaðinn.

Í mínum huga mundi þá ný stjórnsýslustofnun á sviði jafnréttismála aðallega fjalla um félagsleg, menningarleg og efnahagsleg réttindi en að sjálfsögðu er þarna verið að tala um mannréttindi. Það er verið að tala um borgaraleg réttindi líka þannig að hér getum við svo sem rætt um það nafn sem hagræðingarhópurinn hefur gefið þeirri stofnun sem hann leggur til, en ég vil miklu frekar leggja áherslu á verkefnin, hugmyndafræðina en endilega nafngiftina, hvort það sé sú nálgun sem við erum að ræða hér. Þess vegna hef ég í hyggju núna (Forseti hringir.) öðrum hvorum megin við áramótin að setja frumvarpsdrögin á vef velferðarráðuneytisins þannig að þar sé hægt (Forseti hringir.) að tjá sig um þessar tillögur.